132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Öldrunarþjónusta í Hafnarfirði.

479. mál
[14:32]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. 9. þm. Suðvest. hefur beint til mín fyrirspurn um störf nefndar sem falið var að gera tillögur um uppbyggingu heildrænnar öldrunarþjónustu í Hafnarfirði. Einnig spyr hv. þingmaður hvaða endurbætur hafi verið gerðar á aðstöðu vistmanna á Sólvangi á síðustu sex mánuðum.

Virðulegi forseti. Nefnd um uppbyggingu heildrænnar öldrunarþjónustu í Hafnarfirði skipaði ég með bréfi þann 31. október síðastliðinn. Hún hefur skilað mér tillögum sínum og voru þær kynntar opinberlega á mánudag. Nefndin hefur unnið mjög gott starf. Tillögur hennar eru metnaðarfullar. Þær liggja fyrir opinberlega og ég hygg að þær séu komnar á netið. Þær lúta jafnt að uppbyggingu á þjónustu á vegum bæjarfélagsins og ríkisins og hafa verið unnar í góðu samstarfi við aðila í Hafnarfirði og bæjaryfirvöld þar.

Hv. þingmaður spyr hvaða endurbætur hafi verið gerðar á aðstöðu vistmanna á Sólvangi á síðustu sex mánuðum. Þar hefur verið útbúin sérstök deild með sjö rýmum fyrir heilabilaða, eins og ég gat um í utandagskrárumræðu fyrir jól. Þessa dagana verið að leggja lokahönd á frágang þeirra rýma.

Vegna þrengsla á Sólvangi var í desember ákveðið að stöðva inntöku nýrra vistmanna og er gert ráð fyrir að íbúar þar verði ekki fleiri en 60 í lok ársins 2006 í staðinn fyrir að þeir voru 84 í haust. En þeir eru nú 66 talsins þessa dagana.

Ég vil geta þess, af því að það kom í fréttum á einhverjum fréttastöðvum að Hafnfirðingar ættu forgang á Hrafnistu, að samningar okkar við Hrafnistu lúta að því að gefa þeim heimild til að breyta 10 dvalarrýmum í hjúkrunarrými. Að þeim er tímabundinn forgangur vegna þess að verið er að rýmka á Sólvangi. Það eru staðreyndir máls og tímabundinn aðgangur að fimm rýmum á Vífilsstöðum.

Með þessum upplýsingum vona ég að spurningum hv. þingmanns hafi verið svarað. Ég vil endurtaka að vinna þessarar nefndar er mjög góð og ég horfi með bjartsýni til að vinna á þeim nótum sem skýrslan gerir ráð fyrir.