132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Skuldbreytingar hjá Íbúðalánasjóði.

[15:30]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það þarf ekki endilega að vera tvisvar, það getur verið þrisvar og getur verið fjórum sinnum. Þú getur skuldbreytt endalaust. Ég ætla ekki að halda því fram sérstaklega að skattheimta sé eitthvað sérstaklega réttlát, að einhverjir tilteknir skattar séu réttlátari en aðrir skattar. Það má deila um það út í hið óendanlega.

En séu stimpilgjöldin óréttlát í dag þá hafa þau verið það lengi, hv. þingmaður. Og svo ættirðu að skammast þín fyrir það að í hvert einasta skipti sem þú kemur hér upp þá upplýsir þú þjóðina um hve lélegur þú ert í reikningi. Þú heldur fram tómum bábiljum um skattheimtuna og hvernig að henni er staðið hvað eftir annað og ferð með rangt mál. Menn eiga að hugsa sig um áður en þeir gera það hvað eftir annað.

(Forseti (SP): Forseti vill minna hv. þingmann á að fara að þingsköpum. Það á ekki að ávarpa einstaklinga.)

Ertu að tala um þingmann eða ráðherra?

(Forseti (SP): Ráðherrann er líka þingmaður, hæstv. fjármálaráðherra sem talaði síðast.)