132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Skuldbreytingar hjá Íbúðalánasjóði.

[15:31]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ágæt lok á umræðunni um stimpilgjöld og skattheimtu ríkissjóðs sem stýrt er af fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins með því að nefna síðustu orð hæstv. fjármálaráðherra um málið. Eins og ég sagði áðan veit ég ekki hvað hefur gerst á ráðherrabekknum. Vonandi koma ekki fleiri ráðherrar vinstra megin frá til að svara í dag. Það er eitthvað að þarna.

Orðin sem hæstv. ráðherra lét frá sér eru kannski ágæt síðustu orð um þetta og hitta ráðherrann fyrir sjálfan. Þau lýsa því hvað hann verður hvumpinn þegar rætt er um hina miklu skattheimtu Sjálfstæðisflokksins, sama hvort um er að ræða tekjuskatt eða skatt af umferð. Samgönguráðherra var hér fyrir nokkrum dögum að hækka um 100% umferðargjöld. Svona má lengi telja.

Í mínum huga, virðulegi forseti, eru stimpilgjöld mjög óréttlát skattheimta. En mér finnst sem ég hafi lesið að Sjálfstæðisflokkurinn vilji líka afnema stimpilgjöld. En að taka þau margsinnis við skuldbreytingu finnst of langt gengið.