132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[16:35]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það kom fram í ræðu hæstv. iðnaðarráðherra að þessi skýrsla ætti að innihalda allt það helsta sem varðaði breytingar á raforkumarkaðnum og ég hefði talið að það ætti þá að vera verðið, að það væri þá skýrt hvort verð á rafmagni væri að hækka eða lækka. Þegar maður les skýrsluna kemur fram að það sé að hækka hér og lækka þar þannig að það er svolítið erfitt að átta sig á því hvort raforkan er að hækka eða lækka. Ég hefði talið að í þessari skýrslu ætti að gera grein fyrir þeim hluta raforkumarkaðarins sem þessar lagabreytingar varða, þ.e. raforkumarkaðnum á samkeppnismarkaði, en það kemur fram að hann er 36% af allri raforkunni sem er í landinu. Allt hitt, 64%, er í föstum samningum, þannig að til þess að skýrslan verði í raun markviss þarf að gera grein fyrir því hvort þeir notendur sem eru á samkeppnismarkaðnum, 36%, (Forseti hringir.) eru í heild sinni að greiða hærra eða lægra verð, frú forseti.