132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Hræringar í fjármála- og efnahagslífinu.

[12:05]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Það má sannarlega segja að hæstv. ríkisstjórn hafi fengið alvarlega áminningu með þessu mati frá Fitch. Það má eiginlega segja að ríkisstjórnin hafi fengið gula spjaldið.

Þetta er alvarleg áminning til okkar Íslendinga. Öllum sérfræðingum ber saman um, þar á meðal hjá Fitch, að ríkið hafi ekki tekið nægilega mikið á í þessum málum og sett allt sitt traust og trúss á peningamálastefnu Seðlabankans. Þess vegna er rétt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í það hvernig ríkisstjórnin ætlar að bregðast við þessari áminningu eða hvort það eigi bara að loka augunum. Leiðir þetta til einhverra breytinga á efnahagsstefnu hæstv. ríkisstjórnar? Til dæmis hefur komið fram síðustu daga, og það er kannski gott dæmi um hvað þetta sveiflast allt frá einum degi til annars, að hæstv. forsætisráðherra hefur flengst milli fjölmiðla í síðustu viku og upphafi þessarar og boðað að hér verði byggð á næstu 6–8 eða kannski 10 árum 2–3 og jafnvel 4 álver. Í fréttum í gær kveður hins vegar við allt annan tón hjá hæstv. forsætisráðherra. Hvaða skilaboð er verið að senda til markaðarins með þessum misvísandi upplýsingum hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar? Hvað er hér á ferðinni? Auðvitað skiptir svona lagað máli og hefur áhrif á þennan viðkvæma markað.

Vonandi róast þetta, virðulegi forseti, og vonandi erum við það sterk efnahagslega að við stöndum þetta af okkur. En þetta er alvarlega áminning, eins og ég sagði, þetta er gula spjaldið. Ég ætti kannski að leyfa mér að spyrja hæstv. fjármálaráðherra í lokin hvort það sé kannski hjá þannig hjá Fitch að þeir kunni heldur ekki að reikna.