132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Landshlutaverkefni í skógrækt.

555. mál
[14:55]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir þessa ræðu og þau skýru svör sem hann veitti. Ég spurði hæstv. ráðherra út í hvort mögulegt væri, ef af samruna Landgræðslu og Skógræktar yrði, að höfuðstöðvar Skógræktarinnar yrðu fluttar af Austurlandi. Hæstv. ráðherra svaraði alveg skýrt í þessu efni, hann sagði að jafnvel þó að stofnanirnar yrðu sameinaðar þá mundu höfuðstöðvar þessara tveggja greina, annars vegar Landgræðslu og hins vegar Skógræktar, áfram verða á þeim stöðum sem þær eru nú og ég fagna því.

Sömuleiðis finnst mér það mikilvægt að hæstv. ráðherra sagði að hann teldi að miðstöðvar Skógræktarinnar ættu hvergi betur heima en í því höfuðbóli íslenskrar skógræktar sem Austurland er. Þar höfum við Hallormsstaðaskóg og þar höfum við margra áratuga mikilvæga tilraunastarfsemi á sviði nýrra tegunda og nýrra kvæma. Enn fremur fannst mér það eftirtektarvert og þakkarvert hjá hæstv. ráðherra að hann sagði að ef af samruna þessara tveggja stofnana yrði mundi það að öllum líkindum hafa í för með sér aukinn flutning verkefna til höfuðstöðva Skógræktarinnar á Austurlandi. Það fannst mér vasklega mælt og styð hæstv. ráðherra í þessu eins og öllum öðrum góðum verkum sem hann kann að beita sér fyrir og þau eru sem betur fer töluvert mörg.