132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Fjármálaeftirlit.

556. mál
[15:56]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og er ánægð með að mér heyrist hv. þingmenn vera sammála mér um að þetta sé mál sem sé mikilvægt að gera að lögum og efla þannig Fjármálaeftirlitið og auka eftirlitsskylduna eða gera eftirlitinu mögulegt að halda uppi þessari mikilvægu starfsemi sem varðar markaðinn, ég held að við séum öll sammála um það.

Það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi hér og varð nokkuð tíðrætt um var það sem gerðist líklega árið 2000, hann man það nú betur en ég, að ég skrifaði Samkeppnisstofnun ákveðið bréf sem er í eina skiptið sem ég hef haft afskipti af eftirlitsstofnunum mínum. Ég heyri að honum hefur sviðið dálítið það sem ég sagði í umræðu á mánudaginn gagnvart Samfylkingunni að hún væri ekki komið langt á þróunarbrautinni. En það sem ég meina þegar ég tala um þróunarbraut í þessu sambandi er að sjálfsögðu það að tímarnir eru að breytast óskaplega mikið og að við tölum um algerlega sjálfstæðar eftirlitsstofnanir er í takt við tímann. Ég býst við að fyrir tíu árum hafi mönnum þótt frekar ótrúlegt að mál mundu þróast í þessa átt og er í raun ekkert ólöglegt við það og væri ekkert ólöglegt við það að ég mundi skrifa Fjármálaeftirlitinu bréf í dag en hins vegar væri það mjög óæskilegt og mér fyndist að það mundi veikja mjög stöðu Fjármálaeftirlitsins og vera í ósamræmi við þá stefnu sem ég hef haft uppi ef ég færi að gera það og það sama má segja um Samkeppniseftirlitið. Þó svo ég hafi skrifað þetta bréf fyrir 5–6 árum tel ég frekar ólíklegt að ég mundi gera það í dag, svo ég sé bara að hugsa upphátt í ræðustól á hv. Alþingi. En ég heyri að hv. þingmaður veltir þessum hlutum fyrir sér.

Af því að hann spurði einnar spurningar sem var sú að ef lítill og veikburða aðili teldi sig þurfa að fara með mál fyrir dómstóla sem hefði fengið úrskurð í Fjármálaeftirlitinu sem hann sætti sig þá ekki við væntanlega, þá er sérstök heimild til gjafsóknar sem mundi þá koma til í því sambandi.

Í lok ræðu sinnar var hv. þingmaður með hugmyndir um hvort það væri einhver sérstök vantrú ráðherrans á starfsfólki sínu sem ylli því að þetta þagnarskylduákvæði væri svo sem raun ber vitni. Ég held að almenna reglan sé sú að eftir því sem færri vita hluti þeim mun líklegra er að þeir haldi. Í þessu tilfelli gæti það verið þannig að það væri í raun bara ráðherrann sem væri upplýstur um viðkomandi mál en ég tel að það ákvæði sem við nú nemum brott úr lögunum með þessu frumvarpi, verði það að lögum, sé svolítið í takt við gamla tímann en kannski þó fyrst og fremst í takt við þær skyldur sem ráðherrann hefur haft í sambandi við leyfisveitingar sem er núna verið að færa yfir til Fjármálaeftirlitsins. Þetta er því allt saman hugsað sem hér er sett fram.

Ég er ánægð með að heyra að mér virðist hv. þingmenn hafi ekki athugasemdir við það sem kemur fram í frumvarpinu og er nokkuð róttækt, sem sé það að fella kærunefndina út. Ég var vissulega búin að velta því mjög mikið fyrir mér hvað skyldi gera í þeim efnum og ég heyri ekki að athugasemdir séu við það. En auðvitað eru þetta mál sem þarf að fara miklu betur í gegnum í nefndinni eins og öll mál. En þessi stefna sem sett er fram með frumvarpinu og þær tillögur sem gerðar eru til breytingar hníga allar að því að styrkja eftirlitið. Eins og hér hefur komið fram hefur markaðurinn verið að breytast alveg gífurlega, eiginlega meira en nokkur hefur getað látið sér detta í hug og komið hafa upp atvik þar sem — eða maður hefur a.m.k. velt því fyrir sér hvort lög hafi verið nægilega skýr og nógu sterk lagaákvæði í lögum til að taka á málum en þetta frumvarp mun eflaust ekki leysa allan vanda til allrar framtíðar. Þessi mál þurfa alltaf að vera til endurskoðunar og ég ætla ekki að fullyrða það hér og nú að ekki eigi eftir að koma fram frumvarp líka á næsta vetri til að stíga ný skref í þessum efnum.

En ég vil fyrst og fremst þakka fyrir umræðuna. Ég er mjög ánægð með hana og tel að nokkuð góð samstaða ríki á hv. Alþingi um að þessi mál þurfi að vera í góðu lagi.