132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Fjármálaeftirlit.

556. mál
[16:04]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta hefur verið ansi merkileg umræða. Það var t.d. afar athyglisvert að hlusta á hvernig hv. þm. Össur Skarphéðinsson dró þetta mál fram gagnvart öðru máli sem hér hefur verið gert að umtalsefni og var rætt sl. mánudag.

Það hefur m.a. leitt til þess, virðulegi forseti, að hæstv. viðskiptaráðherra kom í ræðustól og sagði að það væri ekki ólöglegt að hún skrifaði Fjármálaeftirlitinu bréf og færi fram á tiltekna skoðun, sem er ansi merkileg yfirlýsing. Þetta er sem sagt löglegt miðað við þau lög sem eru í gildi og þá hefur hv. þingmaður Össur Skarphéðinsson, sem dró þetta hérna fram, algjörlega á réttu að standa hvað það varðar. Enda þegar maður les bæði frumvarpið á sínum tíma og lögin sem hér eru, þá er Fjármálaeftirlitinu gert skylt að gefa viðskiptaráðherra skýrslu einu sinni á ári fyrir 15. september. Í frumvarpinu var það ársfjórðungslega, því hefur verið breytt. Það er því ótvírætt að þetta er hægt.

Virðulegi forseti. Það er ekki verið að tala um að hæstv. viðskiptaráðherra hafi eitthvert yfirvald yfir Fjármálaeftirlitinu, heldur ekki reynt að gefa fyrirmæli um tiltekin atriði. Það er kannski spurning um að það verði skrifað og óskað eftir að tiltekið mál verði skoðað. Vegna þess að í raun og veru er viðskiptaráðuneytið og viðskiptaráðherra þolendur í því máli sem hér hefur verið gert að umtalsefni, þ.e. um þennan ímyndaða eða ekki ímyndaða hlut þýska bankans í Búnaðarbankanum á sínum tíma. Þetta er mjög mikilvægt og full ástæða til að þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir yfirferð hans hér sem hefur leitt í ljós, eins og viðskiptaráðherra sagði, að það er ekki ólöglegt að hún skrifaði Fjármálaeftirlitinu bréf, hins vegar er allt annað (Forseti hringir.) hvað við viljum hafa í takt við tímann núna og það frumvarp sem hæstv. viðskiptaráðherra hefur (Forseti hringir.) flutt hér, er eins og kom fram hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, mjög til bóta, virðulegi forseti.

(Forseti (SP): Ég bið hv. þingmenn að virða tímann og byrja ekki á nýrri setningu þegar búið er að berja í bjölluna.)