132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[12:04]
Hlusta

Frsm. meiri hluta félmn. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú er það þannig að stjórnarandstöðunni er frjálst að leggja til auknar greiðslur og hún mun reyndar gera grein fyrir slíkum tillögum hér á eftir, eða alla vega hluti stjórnarandstöðunnar. Það mun valda útgjöldum hjá ríkissjóði sem er svo sem ekkert við að athuga ef menn vilja leggja slíka tillögu fram. Það er auðvitað hefðbundið að stjórnarandstaðan geri það í mörgum tilvikum og örugglega góður hugur þar að baki.

En það er okkar mat að þessar greiðslur séu geysilega mikið framfaraskref fyrir þennan hóp. Þessar greiðslur eru ekki fyrir hendi í dag. Þetta eru nýjar greiðslur, viðbót við það sem fyrir er, viðbót við umönnunargreiðslurnar og allt það sem var talið upp áðan í yfirferð á nefndarálitinu. Hér er verið að bæta réttindi þessa hóps.

Það er alls ekki þannig að við höfum ekki skoðað þetta frumvarp til grunna, félagsmálanefnd skoðaði það til grunna. Stjórnarandstaðan gat beðið um fleiri gesti og ítarlegri yfirferð ef hún óskaði þess. Við hefðum orðið við því, að sjálfsögðu. Það er þannig sem við höfum unnið í félagsmálanefnd. Við höfum reynt að hafa þar gott samstarf og fá þá gesti til sem kallað hefur verið eftir. Þannig að við skoðum þetta mál til grunna. Það er nú nokkuð síðan að við gerðum það. Við höfum haldið nokkra fundi þar sem þetta mál var ekki til umfjöllunar og stjórnarandstaðan bað ekki sérstaklega um það svo það kemur á óvart ef verið er að gefa í skyn að við höfum ekki skoðað þetta til grunna.

Það er ekki þannig að ráðherrann ráði þessu. Við erum að gera hér breytingar á frumvarpinu sem meiri hluti nefndarinnar leggur til en ekki ráðherrann, þ.e. breytingarnar um að sjúkrasjóðirnir komi fyrst inn og síðan taki ríkið við til að halda tengslum við vinnumarkaðinn sterkara inni. Það er nú alls ekki þannig að ráðherrann ráði. Við reynum hins vegar auðvitað að fara eftir fjárlögum og ef menn vilja breyta fjárlögunum varðandi greiðslur er líka hægt að gera tillögur í fjárlagagerðinni sjálfri.