132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[12:16]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka upp þráðinn þar sem hann var skilinn eftir í ræðustólnum varðandi sjúkrasjóðina. Ég tek undir frammíkall hv. þm. Ögmundar Jónassonar þegar hann spyr réttilega: Af hverju var ekki haft samráð við BSRB? BSRB er stórt og mikið stéttarfélag með sjúkrasjóði sem hafa gert mjög mikið ásamt öðrum sjúkrasjóðum til þess að rétta hlut foreldra langveikra barna af því að ríkið hefur ekki komið inn í það mál fyrr en nú. Rökin að fara fyrst í sjúkrasjóðina, þeir veita mjög góða greiðslu margir hverjir en af hverju máttu foreldrar ekki hafa það val að fara fyrst til ríkisins og reyna þá að leita til sjúkrasjóðsins til að fá viðbætur vegna þess að það er ekkert sem bannar að fá viðbætur úr sjúkrasjóðnum? Ég gat ekki skilið annað í meðförum nefndarinnar en að heimilt væri að gera það. Mér finnst því engin rök fyrir því að lögbinda þetta með þessum hætti og ganga þannig inn á þau réttindi sem verkalýðshreyfingin hefur verið að skapa fyrir þetta fólk. Ég held því að málinu sé ekki lokið og við þurfum aðeins að skoða þetta milli 2. og 3. umr., m.a. hvort það liggi fyrir staðfesting og samþykki verkalýðshreyfingarinnar um að lögfesta þetta með þessum hætti.

Ég sagði áðan að þó að hér sé um að ræða framfaraskref veldur það ákveðnum vonbrigðum að félagsmálanefnd hafi ekki séð ástæðu til þess að taka undir ýmsar þær breytingartillögur sem fram komu hjá þeim gestum sem heimsóttu nefndina vegna þess að þær eru mjög vel rökstuddar margar hverjar. Við erum ekki að tala um einhvern stóran útgjaldalið sem er ríkissjóði algjörlega ofviða. Við erum að tala um að í þeim mikilvægu réttindum sem foreldrar eru loksins að fá muni þetta kosta ríkissjóð 130 millj. kr. þegar þetta er að fullu komið til framkvæmda sem verður ekki fyrr en á árinu 2008. 130 millj. eru rétt eins og einn starfslokasamningur sem við sjáum alltaf dúkka upp öðru hvoru sem einstaklingar fá í sinn vasa. En þarna erum við að tala um 130 millj. sem þetta mun kosta ríkissjóð þegar þetta er að fullu komið til framkvæmda. Ríkissjóður ætti alveg að geta séð af þeim smáaur sem vegur mjög stórt fyrir þessa hópa. Er það ekki rétt munað hjá mér, virðulegi forseti, að ríkissjóður hafi á dag um 900 millj. kr. og að þær fjárhæðir hafi tvöfaldast að raungildi á örfáum árum? Þetta er ekki stór fjárhæð fyrir ríkissjóð en þetta skiptir gífurlega miklu máli fyrir foreldra langveikra barna. Þetta eru skammarlega lágar greiðslur að greiða einungis 93 þús. kr., sem er minna en atvinnuleysisbætur, og það hefur staðið upp úr mörgum sem hér hafa talað í gegnum árin á þinginu hvað atvinnuleysisbætur væru lágar og vantaði mikið upp á að þær dygðu fyrir framfærslu þeirra sem þurfa að vera á atvinnuleysisbótum. Enda stendur til að hækka þær ef ég man rétt og tekjutengja þær en hér er ekki einu sinni farið upp í þá upphæð, 96 þús. kr.

Í mörgum umsögnum eru gerðar verulegar athugasemdir við þetta og gildissvið frumvarpsins. Það er kannski ágætt að ég byrji á að vitna í umsögn Umhyggju, félag til stuðnings langveikum börnum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Það sækist enginn eftir því að þurfa að leggja niður vinnu. Foreldrar alvarlega veikra barna hafa ekki neitt val þegar börn þeirra greinast með alvarlega sjúkdóma. Það hefur ekki verið þjóðinni til sóma hvernig þessi málaflokkur hefur fengið að sitja á hakanum hjá íslenskum stjórnvöldum. Að foreldrar skuli þurfa að missa eigur sínar vegna veikinda barna sinna, þar sem þeir hafa ekki tök á að afla sér tekna, er með öllu ólíðandi.“

Þeir leggja til ýmsar breytingar sem ég vil koma inn á í máli mínu og við höfum tekið upp í stjórnarandstöðunni, fulltrúar í félagsmálanefnd. Ég flyt þær breytingartillögur ásamt hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni og Valdimar L. Friðrikssyni. Tillögurnar voru einnig unnar í samráði við hv. þm. Ögmund Jónasson sem styður þær tillögur sem ég ætla að gera grein fyrir. Þær eru, virðulegi forseti, á þskj. 853 í sjö töluliðum.

Fyrsta breytingartillagan snertir framkvæmdaraðila, hver eigi að hafa framkvæmdina með höndum. Lagt er til að það verði Tryggingastofnun. Fjöldi umsagnaraðila finnst óeðlilegt að þetta sé hjá Vinnumálastofnun og leggja til að framkvæmdin verði hjá Tryggingastofnun, sérstaklega út frá þeirri mikilvægu röksemd að oft er um mjög viðkvæmar upplýsingar að ræða og haga eigi framkvæmdinni þannig að ekki sé verið að fara með slíkar upplýsingar í margar stofnanir. Tryggingastofnun hefur með umönnunarbætur að gera og hefur því upplýsingar um veikindi þessara barna. Því er eðlilegt og rökrétt að framkvæmdaraðilinn sé Tryggingastofnun í þessu tilviki. Fróðlegt væri að heyra hjá hv. þingmanni af hverju ekki er hægt að hafa tilhögunina með þeim hætti að því er varðar framkvæmdina, þó ekki sé farið út í að taka undir fleiri breytingartillögur. Sjálfsagt mun hv. þingmaður svara því að um vinnumarkaðstengd málefni sé að ræða. En hvað með fæðingarorlofið, er það ekki hjá Tryggingastofnun ríkisins? Það er vinnumarkaðstengt málefni.

Tryggingastofnun ríkisins færði mjög góð rök fyrir máli sínu í umsögn sinni og ég ætla að vitna til hennar, með leyfi forseta, en þeir segja m.a.:

„Í 5. gr. frumvarpsins kemur fram að félagsmálaráðherra ákveði hver fari með framkvæmd laganna. Í skýringum kemur fram að Vinnumálastofnun verði mögulega framkvæmdaraðili. Gerðar eru athugasemdir við þessa tilhögun og minnt á markmið stjórnvalda að samræma og einfalda þjónustu við barnafjölskyldur. Það getur varla talist heppilegt að Vinnumálastofnun bætist við þá aðila sem fyrir eru að veita foreldrum veikra/fatlaðra aðstoð. Nú er það félagsþjónusta sveitarfélaga, Tryggingastofnun, Svæðisskrifstofur fatlaðra ásamt heilsugæslu, sjúkrahúsum og Greiningarstöð sem eru þjónustuaðilar. Það hefur verið markmið stjórnvalda að byggja upp heildstæða, öfluga þjónustu en ekki að dreifa á margar litlar starfseiningar. Þjónusta fyrir fjölskyldur fatlaðra og langveikra barna verður að vera veitt af sérfræðingum eins og félagsráðgjöfum og læknum. Starfsmenn þurfa að vera óhemju liprir og hæfileikamiklir í samskiptum til að miðla upplýsingum og taka við erindum frá foreldrum, sem oft eru í ákveðnu sorgarferli og upplifa mikla vanlíðan vegna veikra barna sinna. Hvar sem þessum málaflokki verður komið fyrir er mikilvægt að þar starfi sérmenntað starfsfólk með góða þjónustulund, sem tilbúið er að þróa öflugt samstarf við aðra þjónustuaðila.

Starfsfólk Tryggingastofnunar hefur orðið vart við gríðarlega erfiðleika foreldra langveikra barna og er óásættanlegt að gera þeim erfiðara fyrir með því að dreifa þjónustunni á enn fleiri stofnanir en nú er. Nú er tækifærið til að fækka viðkomustöðum foreldra og samhæfa þjónustuna.“

Einnig er athyglisvert sem fram kom í máli fulltrúa frá Tryggingastofnun, að foreldrar fatlaðra barna þurfa rétt eftir fæðingu að hafa samskipti við um 14 aðila, hvorki meira né minna, á meðan foreldrar heilbrigðra barna þurfa einungis að hafa samband við tvo til þrjá aðila. Þeir segja að það þurfi því að einfalda en ekki flækja stjórnsýsluna. Ég spyr: Af hverju þarf þetta að vera svona? Af hverju þarf að gera foreldrum erfiðara fyrir með þessum hætti að leita til fleiri aðila? Taldir eru upp 14 aðilar sem foreldrar langveikra barna þurfa að leita til. Af hverju má þetta ekki vera hjá Tryggingastofnun sem hefur sérþekkingu á málaflokknum í staðinn fyrir að láta Vinnumálastofnun fá framkvæmd á þessu og dreifa þar með viðkvæmum upplýsingum til fleiri stofnana en þarf að vera?

Þess vegna flytjum við breytingartillögu um að Tryggingastofnun ríkisins annist greiðslur til foreldra sem réttinda njóta samkvæmt lögum þessum.

Tryggingastofnun gerði líka athugasemd við stöðu þeirra sem eru atvinnulausir á endurhæfingarlífeyri hvort þeir hafi rétt samkvæmt lögunum. Það kemur ekki skýrt fram í lagafrumvarpinu en var upplýst í nefndinni að það yrði skoðað í tengslum við reglugerðarsetningu og ég spyr: Af hverju er ekki hægt að setja rétt þeirra í frumvarpið? Í breytingartillögu sem við flytjum er gert ráð fyrir að atvinnuleysisbætur, sjúkradagpeningar og endurhæfingarlífeyrir falli undir skilgreiningu „í samfelldu starfi“ þannig að þeir hópar eigi rétt á greiðslum samkvæmt lögunum.

Tryggingastofnun kom með athugasemd við þetta atriði og sömuleiðis Stéttarfélag félagsráðgjafa vegna atvinnulausra. Rökin fyrir því eru að foreldrar á atvinnuleysisbótum hafa ekki tækifæri til að taka þau störf sem bjóðast meðan þannig stendur á að barn þess hefur greinst með alvarlegan sjúkdóm eða fötlun og þegar einstaklingur fær atvinnuleysisbætur ber honum skylda til að vera í virkri leit að vinnu. Því finnst mér mjög mikilvægt að það sé ótvíræður réttur atvinnulausra í lögunum sem og þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri. Því tökum við þetta upp, vegna þess að t.d. foreldri sem fær endurhæfingarlífeyri gæti ekki sinnt endurhæfingu meðan barn er mjög veikt þar sem þeir sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri þurfa að taka þátt í ákveðnu prógrammi og ef því er ekki sinnt, t.d. ef einstaklingur mætir ekki í skóla eða sinnir að öðru leyti ekki lágmarkskröfu um endurhæfingu, fær hann skemmri eða engan endurhæfingarlífeyri. Þess vegna er ákaflega mikilvægt að þeir sem eru á endurhæfingarlífeyri og þeir sem eru á atvinnuleysisbótum öðlist rétt í samræmi við ákvæði laganna þegar svo stendur á að þeir eignast alvarlega fatlað eða langveikt barn og ekki þurfi að vera að þvælast með það í reglugerð. Löggjafinn á auðvitað líka að setja skýlausan rétt fyrir þessa hópa í löggjöfina.

Eins og fram hefur komið er frumvarpið uppbyggt með þeim hætti að það tekur gildi í áföngum og tekur að fullu gildi árið 2008. Gert er ráð fyrir að foreldrar 250–300 barna geti átt rétt á greiðslum í allt að þrjá mánuði en foreldrar 30–40 barna geti átt rétt í lengri tíma, í sex mánuði, þegar um mjög alvarleg veikindi er að ræða. En þetta tekur allt gildi í áföngum og hefur verið mjög gagnrýnt við meðferð málsins og vil ég aðeins fara yfir þetta.

Umhyggja hefur m.a. gert athugasemdir við þetta, hagsmunasamtök langveikra barna og Þroskahjálp. Landlæknisembættið hefur gert athugasemdir við það að lögin taki ekki gildi í heild sinni fyrr en eftir þrjú ár og segja að það skapist mismunandi réttarstaða í annars sambærilegum tilvikum langveikra eða fatlaðra barna. Þannig getur skipt máli hvort barn veikist t.d. í desember 2007 eða janúar 2008 svo dæmi sé nefnt. Ef barn veikist í desember 2007 fær það sennilega tvo mánuði en ef það er í janúar 2008 fær viðkomandi þrjá mánuði. Við gerum athugasemd við þetta og flytjum um þetta breytingartillögu.

Í b-lið 3. töluliðar í tillögu okkar gerum við ráð fyrir að við bætist nýir málsliðir:

„Þarfnist barn áframhaldandi umönnunar foreldris og önnur úrræði eru ekki í boði að þeim níu mánuðum liðnum sem lög þessi veita réttindi til og foreldri kemst sannanlega ekki út á vinnumarkað af þeim sökum er heimilt að framlengja sameiginlegan rétt foreldra. Foreldri skal og sanna tekjuleysi sitt með skattframtali. Félagsmálaráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði í reglugerð.“

Foreldrar langveikra þurfa í mörgum tilvikum á þessum réttindum að halda miklu lengur en níu mánuði. Ég geri ráð fyrir að ekki sé um mörg tilvik að ræða, samkvæmt þeirri áætlun sem ráðuneytið hefur fengju 30–40 börn þennan lengri rétt samkvæmt frumvarpinu, þ.e. í níu mánuði. Þetta getur því ekki verið útgjaldamikið, að hafa til staðar heimild sem um yrði sett nánari reglugerð af félagsmálaráðherra. Umhyggja hefur t.d. lagt mikla áherslu á að slíkt sé til staðar og eins að þessar réttindagreiðslur til foreldra byrji ekki við skurðpunktinn 1. janúar 2006, eins og hér er gert ráð fyrir. Við höfum farið yfir það hve lengi foreldrar langveikra barna hafa beðið eftir þessum réttindum. Þó nokkuð margir aðilar sem eru bundnir heima með börnum sínum sem hafa fæðst fyrir 1. janúar 2006. Af hverju eiga þeir ekki að njóta sömu réttinda? Af hverju má ekki vera heimild til staðar fyrir þá foreldra sem eru sannarlega bundnir heima til að fá þennan rétt en að skurðpunkturinn verði ekki nákvæmlega við 1. janúar 2006?

Það er mikið óréttlæti í þessu. Umboðsmaður barna hefur t.d. gert athugasemdir við þetta og segir, með leyfi forseta:

„Hins vegar væri æskilegt að allir foreldrar og þar með börn þeirra sem uppfylla skilyrði laganna hverju sinni njóti jafnræðis og þar með sama réttar til greiðslu án tillit til þess hvenær börnin fæðast ...“ Umboðsmaður barna bendir á þetta. Við flytjum því þessa tillögu, virðulegi forseti, og tökum undir það sem hagsmunasamtökin hafa sett fram í þessu sambandi.

Þá ætla ég að koma að greiðslunum, þessum 93 þús. kr. sem ég ætla enn og aftur að halda mig við að séu skammarlega lágar. Auðvitað hefði átt að vera hægt að ná samstöðu um að hafa þær hærri. Umhyggja telur að fjárhæð greiðslna megi ekki vera lægri en a.m.k. bætur atvinnumissis af öðrum toga. Þar eru einmitt settar fram ákveðnar tillögur sem við höfum tekið upp í stjórnarandstöðunni. Vangaveltur eru um það í Umhyggju hvort þjóðfélagið líti sömu augum á að vera heima til að sinna alvarlega veiku eða fötluðu barni og það að vera atvinnulaus. Umhyggja segist ekki sjá mun á því að annast nýfætt barn eða alvarlega fatlað og veikt barn og spyr hvort þessar greiðslur ættu ekki að reiknast á sama hátt og fæðingarorlof og vera 80% af launum.

Þetta finnst mér mjög sterk rök hjá þeim, að við höfum sama háttinn á og greiðum 80% af launum í þennan tiltekna tíma. Við styðjumst þar við ágæta framkvæmd á fæðingarorlofslögunum. Það er alveg rétt sem Umhyggja og fleiri aðilar hafa sett fram, að það er ekki hægt að sjá að það sé mikill munur á umönnunarþörfinni. Kannski er hún enn meiri þegar um er að ræða alvarlega veikt barn, að annast nýfætt barn eða alvarlega veikt barn, og þar er um mikinn mun á greiðslum að ræða.

Við leggjum til að greiðslurnar verði með sambærilegum hætti og í fæðingarorlofslögunum. Við leggjum líka til að þeir sem eru heimavinnandi og ekki á vinnumarkaði, með sama hætti og er í fæðingarorlofslögunum, fái ákveðnar greiðslur til samræmis við fæðingarorlofslög. Hugsunin á bak við þessar greiðslur, fæðingarorlofsgreiðslur og þessar greiðslur, er af sama toga. Foreldrum er bættur upp atvinnumissir á vinnumarkaðnum, í öðru tilvikinu vegna fæðingar barns og í hinu tilvikinu vegna sjúkleika barns. Í báðum tilvikum er um að ræða vinnutap sem bætt er upp með ákveðnum hætti. Þá sér maður ekki af hverju þessi munur á að vera, annars vegar þegar um er að ræða veikt eða fatlað barna og hins vegar þegar um er að ræða greiðslur vegna fæðingarorlofs. Við teljum það mikið réttindamál að þetta verði tekið upp með þessum hætti sem hér er lagt til.

Síðan vil ég nefna lífeyrissjóðsframlög og framlög í séreignarsjóði. Ég spyr hv. formann nefndarinnar: Hvað réttlætir að foreldrar sem fá þessar greiðslur á þessum tíma, annars vegar í níu mánuði og hins vegar sex mánuði, fái ekki greiðslur frá atvinnurekanda, í þessu tilviki þá frá ríkisvaldi, 7% til samræmis við það sem gerist á vinnumarkaðnum? Af hverju fara bara 6% til þeirra? Af hverju er klipið af þessu eins og hér er gert? Það er heldur ekki gert ráð fyrir því að ríkissjóður greiði lögbundið framlag á móti í séreignarsjóð, eins og er á vinnumarkaði. Af þessu sést að ýmsir stórir annmarkar eru á þessu. Þótt að það sé framfaraspor að setja þetta mál á lögbókina er skrefið skammarlega stutt. Ég geri mér ekki vonir um, virðulegi forseti, að þetta verði nokkuð bætt fyrr en þessi ríkisstjórn er farin frá (ÖS: Og við tökum við.) Já, þegar Samfylkingin er komin til valda. Þetta er eitt af þeim málum (Gripið fram í.) sem þarf að breyta.

Ég get alveg trúað því, af því að ég sé einn þingmann Sjálfstæðisflokksins í salnum, að framsóknarmenn … (Gripið fram í: Tveir.) Já, tveir með forseta. En ég gæti trúað því að framsóknarmenn hafi átt í erfiðleikum með sjálfstæðismenn í þessu efni. Það kom í ljós í andsvörum áðan varðandi sjúkrasjóðina. Ég er viss um að þetta er ekki að frumkvæði framsóknarmanna. Ég hygg að það sé að frumkvæði sjálfstæðismanna að lögbinda sjúkrasjóðina með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir.

Ég er senn komin í gegnum breytingartillögurnar sem við leggjum til. En við komum til móts við það sem ítrekað hefur verið fjallað um af ýmsum aðilum, þ.e. landlækni, umboðsmanni barna, Umhyggju, Þroskahjálp og fleiri aðilum: Af hverju á að láta þetta taka gildi í áföngum á þremur árum? Þetta eru 130 millj. kr. þegar það er að fullu komið til framkvæmda, fyrst 40 millj. kr. og síðan 40 millj. kr. og eru það ekki 50 millj. kr. í lokin?

Þetta leiðir til mismununar milli aðila eftir fæðingardegi, hvort barnið fær einn mánuð eða tvo mánuði. Til dæmis hefur komið fram hjá einum umsagnaraðila að þetta geti hugsanlega leitt til þess að menn fari síðar í greiningu með barn og reyni að taka þessar greiðslur út síðar, af því að þá verða komnir fleiri mánuðir á þetta. Þetta býður upp á alls konar vitleysu, virðulegi forseti. Af því að við erum ekki að tala um stærri greiðslu en þetta þá finnst manni það ekki skipta stóru máli fyrir ríkissjóð að þetta taki allt gildi á sama tíma. Þar með væri komið í veg fyrir ýmsa mismunun og ójafnræði sem þetta hefur í för með sér, að láta þetta taka gildi.

Margir umsagnaraðilar gagnrýndu gildistökuna, bæði að það gilti aðeins um börn sem hefðu verið greind 1. janúar 2006 og einnig varðandi það að frumvarpið komi ekki að fullu til framkvæmda fyrr en árið 2008. Þeir sem gerðu það eru Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, BSRB, Þroskahjálp, Heimili og skóli, umboðsmaður barna og Sjónarhóll – ráðgjafarmiðstöð. ASÍ gagnrýndi þetta einnig og sagði það skapa óásættanlega mismunun. Landlæknisembættið segir hættu á að börnum geti verið mismunað í sambærilegum tilvikum, þ.e. jafnöldrum með meðfædda sjúkdóma eða fötlun sem greinist eða kemur fram á mismunandi tíma í lífi þeirra.

Í umsögn Umhyggju kemur fram að þeim þyki ástæðulaust að lögin komi ekki að fullu til framkvæmda fyrr en 2008. Þeim virðist ástæðan einungis fjárhagsleg. Félaginu finnst óásættanlegt að barn sem greinist með sjúkdóm eða fötlun í janúar 2007 eigi annan og betri rétt en barn sem greinist í desember 2006. Fram kom í máli fulltrúa Umhyggju, sem kom á fund hjá félagsmálanefnd, að margir foreldrar væru mjög reiðir yfir þessu ákvæði, þ.e. foreldrar sem hafa ekki geta unnið til að afla tekna í langan tíma vegna veikinda eða fötlunar barns. Þeir eru bæði óánægðir með að þetta skuli vera áfangaskipt með þeim hætti sem hér á að gera og síðan að foreldrar sem eiga börn með langvinna sjúkdóma, sem hafa sannarlega ekki komist út á vinnumarkaðinn en eru fædd fyrir gildistöku laganna, þ.e.. fyrir 1. desember 2006, fái engan rétt. Það fólk hefur beðið lengi eftir því að sjá slíka réttarbót sem hér er um að ræða. Umhyggja hefur t.d. lagt til að foreldrar sem eiga börn sem greindust fyrir 1. janúar 2006 geti fallið undir lögin hafi þeir sannarlega ekki verið á vinnumarkaði.

Síðan er athyglisvert, virðulegi forseti, að umboðsmaður barna kom á fund nefndarinnar og sagðist telja óheppilegt að miða við hvenær barn væri greint, fremur ætti að meta hvaða aðstæður væru fyrir hendi. Það er sannarlega rétt hjá umboðsmanni barna. Umboðsmaður barna telur fyrirkomulagið ekki standast jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Þetta er mál sem hefði þurft að skoða miklu nánar og athuga hvort ekki væri hægt að ná samstöðu með meiri hlutanum um að hafa ekki slíkt óréttlæti í þessum lögum, að mismuna foreldrum langveikra barna eins og hér er auðsjáanlega gert, bæði með því að láta þetta taka gildi í áföngum og eins með því að hafa ekki smávægilega möguleika á afturvirkni í lögunum fyrir foreldra barna sem sannarlega eru enn heima vegna veikinda barna sinna. Eins þarf að vera opið fyrir lengri framlengingu en níu mánuði í ákveðnum undantekningartilvikum eins og hér er lagt til, þ.e. að hæstv. ráðherra setji reglugerð um framkvæmdina.

Virðulegi forseti. Ég hef í stuttu máli gert grein fyrir athugasemdum okkar við þetta frumvarp. Ég ætla að undirstrika, þótt ég hafi verið svolítið gagnrýnin í ræðu minni, að það er vissulega framfaraspor að lögfesta þessa réttarbót fyrir foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna þótt skrefið sé stutt. Ég hefði haldið að þingmenn hefðu meiri metnað til að gera betur í þessu efni en gert hefur verið, ekki síst í ljósi þingsályktunartillögu sem var samþykkt fyrir þremur eða fjórum árum, af fulltrúum allra flokka þar sem lagt var til að myndarlegar greiðslur færu til foreldra langveikra barna. Á hinum Norðurlöndunum, sem við berum okkur saman við, er mun meiri réttur og hærri greiðslur en hér eru lagðar til til foreldra langveikra barna. Þar er betur staðið vörð um rétt foreldra langveikra barna.

Virðulegi forseti. Ég vona að þetta sé einungis fyrsta skrefið og geri mér vonir um að tillögur okkar í minni hlutanum komist í frumvarpið áður en málið verður að lögum á þessu þingi. Það má vel vera að við setjumst aðeins yfir það að draga eitthvað af tillögum okkar til baka til 3. umr., sérstaklega ef málið fer aftur til efnahags- og viðskiptanefndar, ef ástæða er til. Ég segi „ef ástæða er til“ vegna sjúkrasjóðanna. Mér finnst ómögulegt að skilja við málið nema við höfum það sem sannara reynist í þessu efni, þ.e. hvort leitað hafi verið til stjórnar sjúkrasjóðanna eða stjórna verkalýðshreyfingarinnar varðandi álit þeirra á að lögfesta málið með þeim hætti sem hér er lagt til.

Virðulegi forseti. Það er einlæg ósk mín að við getum náð lengra en við stöndum frammi fyrir við 2. umr. í þessu máli, áður en þetta mál verður lögfest. En það skulu verða lokaorð mín að þessu sinni að þetta verður örugglega eitt af fyrstu málum sem Samfylkingin tekur upp, komist hún í ríkisstjórn, að gera betur við foreldra langveikra barna, sem sannarlega eiga það skilið. Nægir eru erfiðleikarnir hjá því fólki þótt ríkið skammti þeim ekki svo litlar tekjur, sem eru meira að segja undir atvinnuleysisbótum. En við bætist að foreldrar hinna langveiku barna hafa beðið árum saman eftir því að fá þessa réttarbót í höfn.