132. löggjafarþing — 77. fundur,  6. mars 2006.

Skatttekjur af umferð.

[15:24]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Í nýlegu svari hæstv. samgönguráðherra við fyrirspurn frá mér sem var m.a. um heildarskatttekjur ríkissjóðs af umferð og bílainnflutningi síðastliðin 10 ár, kemur ýmislegt afar merkilegt í ljós, eins og t.d. þetta:

Bráðabirgðatölur fyrir árið 2005 eru hvorki meira né minna en rúmir 47 milljarðar kr. skattar af umferð og bílainnflutningi. Af þessum 47 milljörðum eru tæplega 9 milljarðar kr. áætlaðir í virðisaukaskattstekjur af rekstri einkabíla. Tekjur af bifreiðakaupum eru um 19,5 milljarðar kr. Tekjur af notkun ökutækja eru rétt tæpir 19 milljarðar kr. Virðulegi forseti. Í tíð núverandi ríkisstjórnarflokka hafa tekjur ríkissjóðs af ökutækjum aukist um hvorki meira né minna en 23 milljarða kr. á verðlagi síðustu áramóta. Og tekjur af ökutækjum sem hlutfall af landsframleiðslu hafa aukist á sama tíma úr 3,7% í 4,8%. Heildarfjárveiting til vegamála er hins vegar, virðulegi forseti, aðeins rétt tæpir 15 milljarðar kr. á árinu 2004, og að mig minnir svipuð tala árið 2005. Þetta þýðir, samkvæmt útreikningi, að u.þ.b. 32 milljarðar kr. hafa runnið beint í ríkissjóð og gagnast því ekki vegagerð eða rekstri og viðhaldi þjóðvega landsins.

Virðulegi forseti. Spurningin til hæstv. fjármálaráðherra er því þessi: Stendur til að lækka skatta ríkissjóðs af bifreiðanotkun landsmanna, t.d. bensíngjaldi eða olíugjaldi eða aðra stórskatta ríkisstjórnarinnar? Eða á að auka fé til framkvæmda á næstu árum? Þá er ég auðvitað að tala um annað en hina venjulegu 1–2 milljarða sem settir eru inn aukalega til vegagerðar á kosningaári. En eins og menn vita á að kjósa á næsta ári þannig að þá má vænta þess að inn komi 1–2 milljarðar. En ég spyr: Verður meira?

(Forseti (SP): Forseti verður að segja að hann telur of mikið ónæði hér í salnum af því hv. þingmenn eru hér að tala saman. Forseti biður hv. þingmenn að taka tillit til þess að hér eru menn að varpa fram fyrirspurnum til ráðherra.)