132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Ákvörðun loðnukvóta.

525. mál
[15:03]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er nú ekki sammála hv. þingmanni um að þessi umræða hafi ekki farið hér fram og menn hafi ekki reynt að nálgast hana út frá sínu eigin hyggjuviti. Það er auðvitað þannig þegar hv. þingmaður spyr mikilvægra spurninga hér þá leitar sjávarútvegsráðherra hverju sinni eftir bestu tiltæku upplýsingum og færir þær inn í umræðuna. En ég veit ekki annað en ég hafi haft mínar skoðanir á þessum efnum og við hv. þingmaður höfum rætt þetta oftar en einu sinni, ég veit ekki betur en hv. þingmanni hafi legið svo mikið á að geta rætt þessi mál við mig að hann hljóp fram úr í röðinni um það hvenær hægt væri að fara af stað með umræður utan dagskrár og hóf hana svona með sínum hætti og ekki var ég að gera athugasemd við það. Mér fannst það bara gott að hann gerði það með því að beina þessu undir liðinn um störf þingsins eða fundarstjórn forseta eða hvað það nú var, og mér fannst það gott vegna þess að ég er sammála hv. þingmanni um að við þurfum að ræða loðnumálin. Hv. þingmaður veitti mér nokkur ráð í þessari umræðu en þau voru ekki alltaf hin sömu. Í eitt skipti sagði hv. þingmaður að það mætti hefja loðnuveiðarnar, í annað skipti var hann farinn að draga í land en nú segir hv. þingmaður, sem er hans skoðun, að við hefðum ekki átt að leyfa loðnuveiðar.

Ég tel að sú ákvörðun sem ég stóð fyrir og veitti kvóta til um loðnuveiðarnar hafi verið gerð á varfærnislegum forsendum og að þær upplýsingar sem ég hafði hafi gefið mér tilefni til þess að gefa út þennan kvóta. Ég vek athygli á því, af því að hv. þingmaður segir að menn eigi ekki bara að horfa á tölur frá vísindamönnum heldur líka að hlusta á sjómennina, þá hlýtur hv. þingmaður líka að hlusta á þá sjómenn sem stunda loðnuveiðarnar og töldu að það hefði átt að veiða meiri loðnu eins og t.d. skipstjórinn sem var viðtal við núna í Fiskifréttum, sem taldi að það hefði átt að veiða a.m.k. 400 þús. tonnum meira af loðnu en gert var í þetta skipti eða 400 þús. tonn, ég man ekki hvort heldur var.

Ég fór ekki að þeim ráðum vegna þess að ég taldi að við ættum að fara varlega. Ég beitti veiðarfæratakmörkunum til þess líka að koma til móts við þessi varfærnissjónarmið. (Forseti hringir.) Þess vegna held ég að það sé ekki rétt hjá hv. þingmanni að menn hafi ekki reynt að nálgast þetta með því að kalla eftir upplýsingum (Forseti hringir.) sem víðast, það var sannarlega gert.