132. löggjafarþing — 80. fundur,  8. mars 2006.

Boðun þingfundar.

[18:05]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég varð satt best að segja svolítið hissa þegar ég varð þess áskynja að hér hefði aftur verið boðað til þingfundar klukkan sex. Við hófum þingfund í dag klukkan tólf og höfum verið hér í ati í allan dag. Ég átti ekki von á því að þessi fundur yrði núna því að á fundi formanna þingflokkanna á mánudag var hvergi minnst á möguleikann á því að hér yrði kvöldfundur á miðvikudegi.

Þingmenn Frjálslynda flokksins hafa bókað sig í kvöld á fund á vegum borgarstjórnarframboðs Frjálslynda flokksins hér í Reykjavík. Nú er það allt saman í uppnámi, óvíst um hvort við getum tekið þátt í þeim fundi, sem þó var mikilvægur, en við verðum bara að sjá til, sjá hvað setur. Um leið er rétt að koma á framfæri líka fyrir hönd þingflokks Frjálslynda flokksins mótmælum gegn því að boðað sé til kvöldfundar með svo skömmum fyrirvara. Að lokum, virðulegi forseti, væri líka dýrmætt að fá að vita hver áætlunin er þá fram á kvöldið. Á að vera fundur hér í allt kvöld? Er verið að hugsa um að fara eitthvað inn í nóttina eða hvað vakir fyrir hæstv. forseta? Því enn og aftur, eins og ég sagði, ber þetta mjög brátt að og mörg eigum við að sjálfsögðu skyldum að gegna. Hér er fjölskyldufólk með ung börn og og það kemur sér því bagalega að vera hér í kvöld. En ef það þarf að vera svo þá er ég tilbúinn í slaginn hvenær sem er.