132. löggjafarþing — 80. fundur,  8. mars 2006.

Boðun þingfundar.

[18:10]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég vildi þá gjarnan fá ræðutíma hv. þm. Drífu Hjartardóttur úr því að hún dró sig til baka. (Gripið fram í: … rauðu ljósi …) Það er rétt að ég tilkynni formlega að ég hyggst nota þann rétt sem ég hef til þess að taka þátt í þessari umræðu um störf þingsins.

Það er auðvitað svo að forseti hefur allan þann rétt sem 63. gr. og fleiri greinar gera ráð fyrir. En það er líka þannig að ef forseti þingsins ætlar að sinna starfi sínu af alúð og gætni leitast forsetinn við að hafa hlutina með skaplegu móti í þinginu og hafa þingmenn með sér en ekki á móti, bæði þingmenn stjórnarinnar og þingmenn stjórnarandstöðunnar. Forseta, með hvaða atkvæðum sem hann er nú kjörinn, ber að mínu áliti, og ég held fleiri, að líta á sig sem forseta alls þingsins. Nú vill til að sá forseti sem nú situr er sérstakur áhugamaður um breytingar á störfum þingsins og á heimasíðu Alþingis var sett hinn 3. mars sl. frétt um för forseta Alþingis ásamt tveimur varaforsetum til New York á þing kvenþingforseta í heiminum.

Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Á fundinum ræddu þingforsetarnir hvernig breyta mætti starfsháttum þinga til að stuðla að auknu jafnrétti. Forseti Alþingis sagði frá áherslum sínum, m.a. á nauðsyn þess að vinnutími þingmanna yrði fjölskylduvænni og að stuðlað yrði að jafnari dreifingu vinnuálags á hverju löggjafarþingi.“

Ég spyr: Nú er 8. mars, nú eru fimm dagar liðnir og það er 8. mars, sem er nú ekki hvaða dagur sem er heldur einmitt mikill fjölskyldudagur eða a.m.k. mikill kvennadagur. Hefur forseti Alþingis skipt um skoðun í þessu efni frá því að hún flutti ræðuna á fundi kvenþingforseta í New York hinn 3. mars sl.?