132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Vestnorræna ráðið 2005.

577. mál
[16:05]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Hæstv. forseti. Í ræðu minni ætla ég að fjalla um skýrslu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins um störf þess síðastliðið ár. En skýrslan liggur fyrir í heild sinni á þskj. 838.

Meginmarkmið Vestnorræna ráðsins er, eins og flestum er kunnugt, að starfa að hagsmunum grannríkjanna þriggja, Færeyja, Grænlands og Íslands. Samskipti landanna og þjóða þeirra eiga sér langa og merkilega sögu, allt frá því á landsnámsöld og gegnir Vestnorræna ráðið mikilvægu hlutverki við að styrkja sambönd þjóðanna til frambúðar. Ráðinu er ætlað að gæta auðlinda, velferðar og menningar þjóðanna á sem víðtækastan hátt. Vestnorræna ráðið rekur sérstaka skrifstofu sem er við hlið alþjóðasviðs Alþingis.

Í starfi sínu í Vestnorræna ráðinu leitast þingmenn við að ná fram markmiðum sínum með ályktunum og tilmælum til ríkisstjórna landsstjórna með virkri þátttöku í norrænu samstarfi, samstarfi við aðra aðila og samtök á Vestur-Norðurlöndum og skipulagningu á ráðstefnum og öðrum verkefnum

Ég vík nú, frú forseti, að skipan og störfum Íslandsdeildar á liðnu ári. Í upphafi árs 2005 skipuðu Íslandsdeild þess eftirtaldir þingmenn:

Birgir Ármannsson formaður, Hjálmar Árnason varaformaður, Guðrún Ögmundsdóttir, Magnús Þór Hafsteinsson, Anna Kristín Gunnarsdóttir, og Kjartan Ólafsson. Varamenn voru Gunnar Birgisson, Einar Már Sigurðarson, Helgi Hjörvar, Magnús Stefánsson, Sigurjón Þórðarson, og Arnbjörg Sveinsdóttir.

Við upphaf 132. þings voru eftirtaldir menn kjörnir í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins:

Halldór Blöndal formaður, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Hjálmar Árnason, sem var endurkjörin varaformaður, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, og Sigurjón Þórðarson. Eftirfarandi menn voru kjörnir varamenn: Pétur H. Blöndal, Helgi Hjörvar, Magnús Stefánsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Magnús Þór Hafsteinsson. Arna Gerður Bang gegndi starfi ritara Íslandsdeildar.

Á fyrri hluta árs bar hæst í starfi Íslandsdeildar skipulagning ársfundar Vestnorræna ráðsins sem haldinn var á Ísafirði í ágúst sl. Íslandsdeildin ákvað einnig að endurskipa íslensku dómnefndina sem starfað hefur undanfarin ár í tengslum við barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins. Auk þess tók til starfa nýr framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins í febrúar, Þórður Þórarinsson.

Í desember 2005 voru tilkynntar tilnefningar til Barna- og unglingabókaverðlauna Vestnorræna ráðsins. Dómnefndir landanna þriggja tilnefna eina bók hver frá sínu landi. Verðlaunin sem veitt eru annað hvort ár verða veitt í tengslum við ársfund ráðsins síðar á þessu ári.

Íslenska dómnefndin um barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins tilnefndi til verðlaunanna árið 2006 skáldsöguna Frosnu tærnar eftir Sigrúnu Eldjárn.

Dagana 15. og 16. júní var þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins um sjávarútvegsmál og sameiginlega stefnu Vestur-Norðurlanda gagnvart Evrópusambandinu haldin í Þórshöfn. Á ráðstefnunni var sjónum beint að fiskveiðimálum Grænlands, Færeyja og Íslands og leitað var leiða til aukinnar samvinnu landanna. Markmið ráðstefnunnar var að komast að samkomulagi um atriði sem varða sameiginlega stefnu landanna í sjávarútvegsmálum og byggja á þann hátt undirstöðu sem getur nýst þeim í samskiptum þeirra við umheiminn. Áhugi á sameiginlegri stefnu í sjávarútvegsmálum gagnvart Evrópusambandinu er ljós, en ráðstefnuna sóttu um sextíu aðilar frá Vestur-Norðurlöndum og Noregi. Meðal þeirra voru þingmenn, ráðherrar og sérfræðingar auk fulltrúa ESB og hagsmunasamtaka sem tengjast sjávarútvegsmálum.

Ekkert vestnorrænu landanna er aðili að Evrópusambandinu og þau hafa enga sameiginlega stefnu gagnvart Evrópusambandinu í sjávarútvegsmálum. Ákvarðanir Evrópusambandsins um sjávarútvegsmál hafa engu að síður víðfeðmar afleiðingar fyrir Vestur-Norðurlönd. Með því að standa saman og tala einni röddu auka löndin möguleika sína á að hafa áhrif á stefnu Evrópusambandsins. Að öðrum kosti geta þau átt á hættu að áhrif þeirra á sjávarútvegsmál minnki í framtíðinni.

Dagana 22.–24. ágúst 2005 var ársfundur Vestnorræna ráðsins haldinn á Ísafirði. Meðal efna á dagskrá fundarins voru vestnorrænt samstarf í sjávarútvegsmálum og Evrópusambandið, samgöngu- og ferðamannamál á Vestur-Norðurlöndum og samstarf á sviði orkumála, loftslags-, umhverfis- og heilbrigðismála.

Á fundinum var Henrik Old frá Færeyjum kosinn formaður forsætisnefndarinnar, Jonathan Motzfeldt frá Grænlandi varaformaður og Birgir Ármannsson annar varaformaður. Ákveðið var að þemaráðstefna starfsársins 2006 yrði tileinkuð ferðamálum og haldin á Grænlandi. Óskaði ráðið eftir því við ríkisstjórnir Íslands og Grænlands að þær styddu áfram flugsamgöngur milli Reykjavíkur og Narsarsuaq, en þriggja ára samningur um stuðning við þessar flugsamgöngur rann út í lok árs 2005. Niðurstaða virðist nú vera fengin í það mál og munu tvö flugfélög sjá um sumarflug milli Íslands og Grænlands.

Þrjár ályktanir voru samþykktar á fundinum. Fyrst er að nefna ályktun um að styrkja námskeið fyrir vestnorræna rithöfunda. Einnig var samþykkt ályktun um að stuðla að því að Norður-Atlantshafssvæðið verði frumkvöðlasvæði á sviði náttúruverndar og notkunar á náttúruvænum orkugjöfum. Í þriðju ályktuninni var lagt til að samstarf á sviði talningar á hvölum í Norður-Atlantshafi yrði aukið. Ályktanir fundarins voru samþykktar einróma. Þær hafa nú verið lagðar fram sem þingsályktunartillögur hér á Alþingi og hefur utanríkisnefnd þær til athugunar.

Fjölbreytt verkefni bíða Vestnorræna ráðsins á árinu 2006 en ársfundur þess verður haldinn í Færeyjum í ágúst og þemaráðstefna á Grænlandi í júní. Auk þess hefur grænlenska landsþingið boðið til vestnorrænnar kvennaráðstefnu í lok maí.

Frú forseti. Það er ljóst að margvísleg málefni eru á döfinni hjá Vestnorræna ráðinu og samstarf Alþingis við þing þessara miklu vinaþjóða okkar er mikilvægt fyrir áframhaldandi tengsl þeirra. Það er því von mín og annarra meðlima Íslandsdeildarinnar að málefni Vestnorræna ráðsins verði áfram sýndur áhugi hér á Alþingi.