132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

NATO-þingið 2005.

585. mál
[20:00]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er það svo að það hefur verið uppi ágreiningur innan norsku ríkisstjórnarinnar um utanríkisstefnuna sem varð þess m.a. valdandi að utanríkisráðherrann gekk á fund bandaríska sendiherrans í Osló, ef ég man rétt, til að segja að áherslur vinstri flokksins í Íraksmálum, eða ég man ekki nákvæmlega hvað það var, væru ekki stefna ríkisstjórnarinnar. Þar fyrir utan mundi ég ekki treysta mér til að samþykkja allt sem frá norsku ríkisstjórninni kemur hversu góð sem hún er með bundið fyrir augun. Þannig að ég er ekki tilbúinn að skrifa upp á allt sem hún gerir.

NATO kunni að breytast. NATO hefur verið að breytast og á mjög slæman hátt. Það stendur í grunnsáttmála NATO að árás á eitt ríki jafngildi árás á önnur. Það sem hefur verið að breytast í áherslum NATO á 10. áratugnum, og mjög ákveðið eftir samþykkt í Washington 1999 og síðan í framhaldinu í Prag og áfram, er að menn fara að leggja áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir. Ógn við eitt ríki er ógn við annað. Það er stutt yfir í árás á annað ef það er samþykkt fyrir því að bregðast við ógninni á fyrirbyggjandi hátt. Á sama tíma var lögð áhersla á hreyfanlegar hersveitir. Á sama tíma var lögð áhersla á heiminn allan. Hann var allur undir. Við horfðum ekki bara á okkar þröngu landamæri.

Hver er það sem líklegastur er til að verða fyrir ógn? Það er sá sem ógnar öðrum. Það eru Bandaríkin. Og aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu NATO er af þeim sökum orðin Íslendingum mjög hættuleg. Besta skrefið sem við gætum stigið til að verja okkur og treysta öryggi okkar er að ganga úr NATO (Forseti hringir.) og hafa eins mikla fjarlægð og mögulegt er á milli okkar og haukanna í Washington.