132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

NATO-þingið 2005.

585. mál
[20:12]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er vandlifað í þessum heimi. Það er alveg rétt. Varðandi árásirnar á Balkanskaganum á sínum tíma þá er það nú staðreynd, sem kom í ljós eftir að þær árásir voru gerðar, að fjöldamorðin og ódæðisverkin voru einkum framin eftir að þær árásir hófust. Það er mat þeirra sem ég alla vega hef kynnt mér málin hjá að þær árásir hafi orðið til að kveikja elda sem ella hefði verið hægt að slökkva.

Alla vega var búið að setja málin í farveg þar sem ÖSE gegndi lykilhlutverki en það voru málalyktir sem Bandaríkjastjórn og ráðandi öfl í NATO vildu ekki sætta sig við.

Ég ætla að heita hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni því að sýna honum bók eða jafnvel gefa honum bók um aðdragandann að þessum atburðum þar sem fréttamenn frá öllum helstu fjölmiðlum heimsins, vestanhafs og austan, BBC, Daily Telegraph, bandarískum sjónvarpsstöðvum, frönskum, þýskum, ræða þessi mál og sýna fram á þær lygar sem beitt var í aðdraganda stríðsins.

Það er nokkuð sem minnir okkur einnig á lygarnar og ósannindin sem árásin á Írak var á sínum tíma réttlætt með. Þannig að að þessu leyti er einnig vandlifað í þessum heimi og oft þegar við töldum okkur vera að samþykkja erfiðar ákvarðanir á grundvelli þess að við værum að forða fólki frá mikilli ógæfu og hörmungum þá hefur sagan leitt í ljós að við (Forseti hringir.) höfum allt of oft verið blekkt.