132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[10:45]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að síðasti hv. þingmaður sem var í ræðustól ætlaði að leiða hjá sér pirring og svo verður hver og einn að meta hvernig það gekk.

Undir þessum lið, um fundarstjórn forseta, hafa menn komið hér upp eins og gert var líka í fyrri ræðum og ásakað forseta um valdníðslu gagnvart þinginu, eins og hv. þm. Jón Bjarnason sagði. Ég vek athygli á að þessi talsmaður Vinstri grænna sagði að dagskrá þingsins yrði ekki breytt nema hér væri um að ræða náttúruvá eða skelfilegir sjúkdómar herjuðu.

Virðulegi forseti. Ég held að þessi ræða hv. þingmanns segi allt sem segja þarf um hvernig staðan í þessu máli er. Hér eru menn blygðunarlaust að reyna að stoppa mál með málþófi og ég bið hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar að hugsa þetta mál örlítið lengra.

Hér minntist hv. þm. Drífa Hjartardóttir á að sumir þingmenn hafi starfað á öðrum lýðræðislegum vettvangi og vísaði í borgarstjórn Reykjavíkur. Þar hef ég starfað líka. Þar starfaði ég með formanni Samfylkingarinnar, hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, og slatta af vinstri grænum ef út í það er farið. Ég held að það hafi ekki hvarflað að neinum manni þar hvorki meiri né minni hluta að sjálfsagt væri og eðlilegt að minni hlutinn mundi stoppa mál — og nóg var af vitlausum málum þar eins og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þekkir manna best — með málþófi. Er það virkilega svo, og það er grundvallarspurning, að mönnum þyki það eðlilegt og rétt að minni hlutinn geti stoppað mál með alls konar uppákomum og með því tala nógu lengi? Ég spyr, virðulegi forseti: Hvaða lýðræðishugmyndir eru það? Hvaða lýðræðishugmyndir eru það að eftir kosningar séum við með meiri hluta í þinginu en megum sitja uppi með það að hann geti talað út í það óendanlega og stoppað mál ef minni hlutanum sýnist svo?

Við erum ósammála í þessum sal og ég er ekkert að biðja hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar um að vera sammála okkur í einstaka málum. En ég bið þá áður en þeir halda áfram þessu skipulagða málþófi sem þeir svo sannarlega hafa gert að hugsa þetta aðeins lengra því þetta hefur eðli málsins samkvæmt fordæmi og ef menn eru þeirrar skoðunar að minni hlutinn eigi að geta stoppað mál þá þurfum við að fara að hugsa þetta lýðræðisfyrirkomulag okkar eitthvað upp á nýtt, því miður.