132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[10:56]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Síðasti ræðumaður flutti mál annarra manna þó nokkuð í ræðu sinni þannig að það eru ekki undantekningar á því í þeim ræðuhöldum sem fara hér fram.

Ég ætla fyrst að mótmæla því sem hæstv. iðnaðarráðherra sagði að friður hefði verið um að þetta mál væri afgreitt úr iðnaðarnefnd. Þvílíkt og annað eins. Við erum búin að halda því fram í umræðum um þessi mál alveg frá upphafi að ekki sé hægt að klára þau nema heildstætt og ekki liggur fyrir að hægt sé að taka á málunum sem fylgja.

Frumvarpið um jarðrænar auðlindir sem lá fyrir þinginu í fyrravetur kom ekki fram aftur núna og ekki verður hægt að klára það fyrr en nefnd iðnaðarráðherra, sem á að skipa núna, hefur lokið störfum.

Frumvarpið um vatnsvernd hefur ekki komið fram en hefur verið boðað. Fyrir liggur að nú er búið að ná samkomulagi um hvað eigi að vera í því. Það verður ekki tilbúið fyrr en á næsta hausti.

Það er starf í gangi við endurskoðun stjórnarskrárinnar sem er hluti af þessum auðlindamálum öllum sem hanga saman í þessari löggjöf sem verið er að fjalla um. Þetta þarf allt saman að sjást í samhengi til að menn geti tekið afstöðu til þessara mála sem hér eru á ferðinni.

Mér finnst að hæstv. forseti ætti að velta þessum málum efnislega fyrir sér og hvort einhver skynsemi sé í því að keyra mál í gegn sem ekki ein einasta röksemd hefur komið fram fyrir að liggi á að ljúka. Það er enginn vandi á ferðum neins staðar sem bent hefur verið á sem knýr á að ljúka þurfi þessu máli.

Hæstv. forseti ætti fyrst og fremst að beita sér fyrir því að menn klári þessa endurskoðun í heilu lagi. Við getum svo tekist á um það sem skiptir máli hvað varðar skilgreiningu á eignarréttinum. Það er ágreiningur í málinu um það. En mér finnst að hæstv. forseti eigi að beita sér fyrir því að menn vinni skipulega og af skynsemi að því að afgreiða mál í þinginu. Það er ekki hægt að halda því fram að það skuli gert með þessum hætti. Þetta mál þarf að vinna í heildina og ég legg áherslu á að hæstv. forseti láti ekki etja sér í foraðið með því að láta þingmenn standa hér yfir máli sem engin einasta röksemd hefur komið fram fyrir að liggi á að fari í gegnum þingið. Hvað er það sem rekur svo eftir? Ekki neitt. Það var spurt eftir því í allri umræðunni um þetta mál í nefndinni. Það er búið að hlusta grannt eftir því hvað menn segja hér í löngum ræðum, þeir sem hafa tekið til máls. Það hefur ekkert komið fram um það hvað liggi á. Lög sem hafa verið í gildi síðan 1923, allir sammála um að þau hafi verið mjög farsæl, allt verið í fína lagi með þessi lög, einhver bestu lög sem hafa verið sett. Svo koma menn núna og ætla að rusla þeim í gegn.