132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[10:59]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég kem í pontu til að ræða fundarstjórn forseta. Ég vil styðja forseta í því að hafa vikið frá starfsáætlun Alþingis og halda fund í dag. Ég held að Íslendingar séu vanir því þegar mikill afli berst að landi eða hey liggja undir skemmdum og kemur væta að það sé unnið almennilega og ég vorkenni þingmönnum ekkert að vinna á föstudegi og ef nauðsyn krefur, frú forseti, þá ættum við að ræða þetta líka á morgun, á laugardegi og á sunnudag því það er mikill afli sem berst að landi, það er mikið af löngum ræðum.

Hins vegar, frú forseti, ef um er að ræða málþóf þá finnst mér það ekki lengur vera sniðugt vegna þess að þá er minni hlutinn að beita meiri hlutann ofbeldi til að ná fram markmiðum sínum og það er brot á lýðræði, frú forseti. Og ég vil styðja forseta í því að koma í veg fyrir slíkt. Minni hlutinn verður að sætta sig við niðurstöðu kosninga. Hann verður að sætta sig við að meiri hlutinn taki ákvarðanir.

En það er annað, frú forseti, sem leiðir af þessum löngu ræðum. Umræðan verður ómálefnaleg. Þegar einhver stendur í ræðustól og ég veit ekki hvort hann ætlar að tala í 5 mínútur eða 5 tíma, þá er erfitt fyrir mig að fara í andsvar við hann og það er erfitt fyrir mig að svara honum og það liggur allt óljóst fyrir. Þess vegna vil ég leggja til, af því að við erum að ræða fundarstjórn forseta, að forseti komi því að hjá þingmönnum og biðji þá um að tilkynna þegar þeir stíga í ræðustól hversu lengi þeir ætla að tala þannig að málefnaleg umræða geti myndast.

Svo vil ég benda hv. þingmönnum á það, þeim sem ekki hafa verið kennarar, að athygli hlustenda dofnar yfirleitt eftir svona 10 mínútur til korter og það er eiginlega vonlaust að tala mikið lengur, þannig að öll umræða eftir það gefur ekkert. Auk þess vil ég benda mönnum á að það er miklu erfiðara að halda stutta ræðu og segja margt en halda langa ræðu og segja ekki neitt. En það er því miður niðurstaðan af því sem hér fer fram og er þáttur í því að virðing Alþingis er ekki eins mikil og skyldi.

Að síðustu vil ég ræða, frú forseti, um tímann. Tíminn er verðmætasta eign hvers manns. Bílar, hús, verðbréf, vinir, fjölskylda, heilsa, allt saman er verðlaust ef menn hafa ekki tíma og það fólk sem veit að maðurinn er ekki ódauðlegur veit að tíminn er verðmætur. Við eigum öll 24 klukkustundum styttri tíma eftir en á sama tíma í gær og sá tími rennur og minnkar á hverjum einasta degi, minn tími og ykkar tími og við eigum að fara vel með hann. Það er kannski rétt að benda á að samhengi er á milli tímans og vatnsins, eins og mörg skáld hafa bent á, hvort tveggja rennur í burt og kemur ekki aftur.