132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[11:53]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ég ætla, eins og fleiri í stjórnarandstöðunni, að leggja til að þessu máli verði frestað. Ég legg það m.a. til grundvallar að það er eðlilegt að ræða vatnsvernd í samhengi við þetta mál, eins og margir hafa bent á. Það er alveg stórundarlegt að það skuli ekki hafa verið gert.

Í öðru lagi vil ég nefna að svo virðist sem okkar ágæti formaður iðnaðarnefndar sé margsaga. Hann segir í öðru orðinu að einungis sé um að ræða formbreytingu en ekki efnisbreytingu. En þeir sem standa í vegi fyrir formbreytingunni eru síðan kallaðir ónefnum og jafnvel sakaðir um kommúnisma og eignaupptöku. Það fer ekki saman að segja annars vegar að um enga efnisbreytingu sé að ræða heldur einungis formbreytingu og hins vegar að kalla þá sem standa á móti þeirri formbreytingu, sem ekkert er, öllum ónefnum sem upp koma í huga hv. þingmanns þegar hann stendur hér í þessum ræðustól.

Hv. þingmaður virðist líka að einhverju leyti yfirfæra hlutverk Framsóknarflokksins í þessu máli á stjórnarandstöðuna, sem er af og frá. Ég er á því að við í stjórnarandstöðunni höfum flutt hér málefnalegar ástæður fyrir því að fresta þessu máli. Hann talar um að Vinstri grænir séu að drusla öðrum flokki áfram í þessu máli. Kannski má heimfæra það upp á ástand mála í ríkisstjórninni. Ef til vill er Framsóknarflokkurinn, með hæstv. iðnaðarráðherra í fararbroddi, að drösla og drusla Sjálfstæðisflokknum áfram í þessu máli, herra forseti, það skyldi þó aldrei vera? Síðan er hv. þingmaður með eitthvert háð þegar er verið að ræða fundarstjórn forseta og nefnir það að einn ágætur hv. þingmaður muni þá í því kosningabandalagi sem myndað yrði verða forsætisráðherra. Það átti að vera eitthvert háð.

Ég verð að segja það, ég fór að hugsa þetta þegar hann hafði þessi orð hér uppi, að ég er á því að hv. þm. Jón Bjarnason væri þó miklu betur kominn í því embætti en sá sem nú er í því. Hann hefur farið mjög illa með völd sín undanfarin tíu ár, herra forseti. Hann hefur verið að sölsa undir sig og sínar flokksklíkur ríkiseigur og mér finnst það mjög ámælisvert hvernig hann hefur starfað. Mér finnst það í rauninni ekkert aðhlátursefni að vera að hæðast hér að mönnum. Ef stjórnarandstaðan kæmi hér og tæki yfir værum við ekki með svona mál uppi, alls ekki. Og vera að tala um eignaupptöku þegar þessir sömu flokkar hafa ráðist að bændum þessa lands, sem þeir segjast í frumvarpinu vera að verja, og meinað þeim að nýta sín eignarlönd í fjöruborðinu, þetta fer ekki saman. Ég er á því að hæstv. forseti (Forseti hringir.) eigi að sjá að sér og draga þetta mál af dagskrá.