132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[11:52]
Hlusta

Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Forseti vill af þessu tilefni rifja það upp sem hann hefur sagt hér áður í umræðum um fundarstjórn forseta varðandi þetta mál, að frumvarp til vatnalaga kom fyrst fram til umræðu hér á hinu háa Alþingi í byrjun nóvember á síðasta ári og hefur verið alllengi til umfjöllunar í iðnaðarnefnd. Það hefur enginn hv. þingmaður komið á framfæri mótmælum við forseta þingsins um að þetta mál yrði afgreitt úr iðnaðarnefnd (Gripið fram í.) með þeim rökum að það væri ekki fullunnið þar. (Gripið fram í: Það hafa komið nýjar upplýsingar.) Hins vegar eru skiptar skoðanir milli hv. þingmanna um málið og það er ljóst að það eru álit bæði frá meiri hluta og minni hluta.

Forseti vill að þetta komi hér skýrt fram.