132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[12:02]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég vil nú vekja athygli forseta á 60. gr. þingskapa Alþingis þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Frumvörp, hvort heldur eru frá ríkisstjórn eða þingmönnum, svo og tillögur til þingsályktunar og breytingartillögur má kalla aftur á hverju stigi umræðu sem vill.“

Það er því ekkert hér sem hindrar að forseti beiti nú þegar skynsamlegu valdi sínu til þess að stöðva þessa umræðu og kalla málið til baka.

Í þessu sambandi vil ég inna hæstv. forseta eftir því hvort honum hafi verið gert ljóst að Alþingi gæti hafa verið leynt upplýsingum varðandi þetta mál, mikilvægum grundvallarupplýsingum. Það kom fram í máli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar, sem sat á fundi og hlýddi á mál eins höfundar verktaka við samningu frumvarpsins, að samþykkt frumvarpsins væri nauðsynleg til þess að hægt væri að halda áfram með Kárahnjúkavirkjun eða til að þar skapaðist ekki réttaróvissa eða eitthvað í þá veru, varðandi framkvæmd við virkjunina.

Þetta hefur aldrei verið nefnt hér í umræðunni. Hæstv. forsætisráðherra hefur sagt að þetta skipti engu máli, þetta væri smámál, hæstv. iðnaðarráðherra hefur sagt að hér væri bara um formbreytingar að ræða. Ef þetta skapar réttaróvissu við Kárahnjúkavirkjun skapar þetta þá ekki sömu réttaróvissu við úthlutanir iðnaðarráðherra á öllum öðrum virkjunarleyfum? Er hér ekki um einn stærsta hluta málsins að ræða? (Gripið fram í.) Þetta er um fundarstjórn forseta því að ég tel að forseti beri ábyrgð á því að mál komi vel unnin inn í þingið og a.m.k. þegar vitneskja eins og sú sem barst okkur í dag, að þingið hafi jafnvel verið leynt mikilvægum grundvallaratriðum í málinu sem ganga þvert á yfirlýsingar ráðherra varðandi mikilvæga stöðu þess máls, þá finnst mér að forseti eigi þegar í stað að ganga úr skugga um hvort þingið hafi verið leynt grundvallarupplýsingum í málinu. Bara af þeirri ástæðu einni saman ætti forseti að fresta fundi og ganga úr skugga um hvernig þeim málum er háttað, því að ég ætla hæstv. forseta það ekki, sem stýrir fundi á margan hátt mjög vel, að ætlast til þess að þingið fjalli um mál þegar mikilvægum upplýsingum varðandi það hefur verið haldið utan þings.