132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[12:29]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Mér hefur gengið svo hægt að fá orðið í þessari umræðu að ég stend hér og búið er að skipta um hæstv. forseta í forsetastólnum á meðan. Ég ætlaði einmitt að spyrja hæstv. forseta, og nú kemur það á þann sem við tók í stólnum að svara, vegna þess að ég verð að upplýsa fáfræði mína. Það kom fram nefnilega hjá hæstv. forseta í yfirlýsingu áðan að það hefði ekki verið kvartað við hæstv. forseta frá iðnaðarnefnd um að verið væri að taka það mál út sem ekki væri fullunnið. Ég kannast ekki við það og verð að viðurkenna fáfræði mína í því að við þingmenn höfum möguleika á að bera okkur upp við forseta og getum með því komið í veg fyrir að vitlaus mál séu tekin úr nefndum.

Ég óska eindregið eftir því að hæstv. forseti útskýri það því að auðvitað mundi ég vilja notfæra mér það í framtíðinni þó að ég hafi misst af því í fortíðinni að ræða slíkt við forseta að stöðva að mál verði tekin út ef í óefni stefnir. Það er nefnilega þannig að í þessu máli hefur það legið fyrir og ég held betur en í flestöllum öðrum málum að við værum gjörsamlega andvíg afgreiðslu málsins. Það var fjallað um þetta mál í allan fyrravetur, það er búið að fjalla um þetta mál í allan vetur og það er engin leið að gera breytingartillögur við málið öðruvísi en að flytja nýtt frumvarp. Það er verið að snúa gjörsamlega við vatnalögunum með þessu frumvarpi og það er ekki hægt að flytja breytingartillögur við það. Það verður að flytja nýtt frumvarp til að klára málið með einhverjum skynsamlegum hætti. Við höfum lagt áherslu á, og þess vegna höfum við ekki flutt slíkt frumvarp, að þau mál fái að fylgjast að, endurskoðun vatnalaga, lög um vatnsvernd og lög um jarðrænar auðlindir sem hefur staðið til að setja hérna. Þess vegna höfum við sífellt lagt það til að menn fengjust við þessi mál og reyndu að afgreiða þau í samhengi og öll í einu. Það er ekki hægt fyrr en næsta vetur því að það er ekki fyrr en í haust sem nefnd iðnaðarráðherra á að skila af sér um það hvernig eigi að fást við t.d. úthlutun á rannsóknarleyfum og að afgreiða það hvernig aðilar fá að nálgast auðlindir landsins og framtíðarstefnu hvað þessi málefni varðar. Það stendur yfir endurskoðun stjórnarskrárinnar sem er hluti af þessu. Inn í hana á að fara ákvæði um auðlindir í þjóðareign. Allt þetta hangir saman og þarf að ræðast í heilu lagi.

Hér vaða menn fram og hefðu átt að læra af sögunni, skoða hvernig menn tóku á málum hér fyrr á öldinni, síðustu öld, þegar menn báru gæfu til þess að ná samstöðu um það hvernig ætti að afgreiða þetta stóra mál um vatnið. (Forseti hringir.) En nú er sko önnur öldin hér, hæstv. forseti.