132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[12:36]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Það virðist vera að sami hlutur sé að endurtaka sig og gerðist hér í gær að við komumst ekkert áfram með þinghaldið vegna þess að hæstv. forseti stendur fast á því að halda áfram umræðu á þessum laugardegi. Ég vil benda á af því að alltaf er verið að kenna stjórnarandstöðunni um að hér þurfi að fara fram kvöldfundir og að við þurfum að víkja út frá settri dagskrá, vikudagskrá, og funda hér á tímum sem ekki höfðu verið skipulagðir sem þingfundatímar, að það er auðvitað hæstv. forseti sem ákveður hvenær við eigum að hittast og funda hér. Það er gert þrátt fyrir andstöðu formanna þingflokka stjórnarandstöðuflokkanna og settir eru hér aftur og aftur á þingfundir með stuttum fyrirvara jafnvel, eins og gerðist sl. miðvikudag. Þá var haldið áfram á fundi að loknum þingflokksfundum. Þetta er auðvitað furðulegt mál.

Síðan koma hv. þingmenn stjórnarflokkanna hér upp og tala eins og það sé einhver glæpur að lesa upp ljóð hér á Alþingi, alltaf talað um það með mikilli fyrirlitningu að menn hafi jafnvel verið að lesa upp ljóð. Aðrir þingmenn hafa jafnvel stungið upp á að við kæmum hér upp og segðum hvað við ætlum að tala lengi. Afar furðulegt að fara fram á það við þingmenn að þeir gefi einhverja skýrslu um það áður en þeir hefja mál sitt hversu lengi þeir ætli að tala. Ég hef aldrei heyrt annað eins. Ekki hef ég orðið vitni að því að hv. þm. Pétur Blöndal komi hér upp og segi alltaf: Ja, nú ætla ég að tala í 30 mínútur, nú ætla ég að tala í fimm mínútur.

Það hefur verið farið fram á það, frú forseti, að gefið verði upp hversu lengi á að halda áfram í dag. Svörin sem við höfum fengið um það hafa alls ekki verið skýr. Það hefur verið sagt að það færi eftir því hversu langar ræður þingmenn muni halda. Nú vitum við það öll að það eru 15 þingmenn á mælendaskrá og það er augljóst að okkur tekst ekki að ljúka málinu á þessum þingfundi hér í dag, það er alveg bara á hreinu.

Aðeins um það, frú forseti, að eitthvað lágkúrulegt sé að tala um hversu illa þingmenn stjórnarflokkanna mæta hér til þings, þá var ég aðeins að vitna til þess að nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins töluðu um að við værum nú ekkert of góð að mæta hér á (Forseti hringir.) föstudegi og laugardegi og tala (Forseti hringir.) en síðan eru þeir auðvitað farnir sjálfir. Það var það sem ég var að benda á, frú forseti.