132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[15:35]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Vegna þess fundar sem haldinn var í hv. iðnaðarnefnd finnst mér rétt af því að við ræðum hér um fundarstjórn forseta að rifja aðeins upp það sem fram fór á fundi nefndarinnar vegna þessa máls. Eins og við höfum tekið eftir sem höfum fylgst með þessari umræðu hefur deilan um vatnalagafrumvarpið snúist um það m.a. hvort um formbreytingu eða efnisbreytingu sé að ræða í þessu frumvarpi. Menn hefur greint á um það. Við í stjórnarliðinu höfum haldið því fram að einungis sé um formbreytingu að ræða varðandi það hvað felst í eignarrétti landeigenda og teljum að vatn og vatnsréttindi séu undirorpin eignarrétti þeirra. Það var staðfest á fundi nefndarinnar í morgun, og ég veit ekki betur en að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, fulltrúi Samfylkingarinnar, sem kom á þann fund hafi tekið undir það, að menn hafi í íslenskri lögfræði, bæði dómstólar og fræðimenn, verið sammála um þetta inntak vatnalaganna síðustu 80 ár. Ef hv. þingmaður vill leiðrétta þennan skilning minn á því sem kom fram á fundinum þá gerir hann það.

Ég lít svo á að við höfum náð saman um það á fundi nefndarinnar að hér væri einungis um formbreytingu en ekki efnisbreytingu að ræða. Við urðum líka sammála um að sú meginbreyting sem fram kemur í þessum lögum varðar stjórnsýslu vatnamála en ekki efnisbreytingu á inntaki eignarréttarins.

Í þessari umræðu, frú forseti, hefur líka verið kvartað yfir því að vatnalagafrumvarpið sé ekki tekið til umræðu samhliða því að fjalla um vatnatilskipun ESB. Það kom fram á fundi nefndarinnar í morgun hjá embættismanni úr umhverfisráðuneytinu, sem var mjög upplýsandi, að vatnatilskipun ESB mun, þegar hún verður lögleidd í íslenskan rétt sem verður líklega á árunum 2018–2019, ekki innihalda atriði sem varða náttúruvernd, dýravernd, auðlindastjórnun eða stjórn fiskveiða. Menn hafa talað mikið um það á hinu háa Alþingi að rétt sé að fjalla um frumvarp til vatnalaga ásamt vatnatilskipuninni af þeirri ástæðu að rétt sé að taka umræðu um náttúruvernd samhliða vatnalögunum sem slíkum. En það var sem sagt upplýst að þegar þessi tilskipun verður innleidd í íslenskan rétt mun hún ekki fjalla um náttúruvernd. Ég tel rétt að þetta komi fram hér vegna þess að ég tel (Forseti hringir.) að þetta sé mikilvægt atriði og ætti að greiða fyrir frekari umræðu um þetta mál.

(Forseti (SP): Enn og aftur verður forseti að árétta það við hv. þingmenn að þeir ræði um formhlið þessa máls en ekki efnishlið.)