132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[19:56]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Undir þessum lið var hreyft afskaplega athyglisverðri spurningu. Hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir spurði hver réttur hennar væri hér til að taka þátt í umræðum um þetta mál sem hefur verið hér á dagskrá, þ.e. frumvarp til vatnalaga. Þetta hlýtur að skipta ansi miklu máli, bæði fyrir okkur sem störfum hér á þinginu, hver úrskurður forseta verður í þessu efni, ekki síður fyrir þá varaþingmenn sem eiga von á því að koma hér inn á næstunni og enn fremur í framtíðinni. Eins og búið er að stilla upp dagskrá þingsins fyrir þessa viku er allt heldur óljóst, þ.e. við vitum hvað á að vera á dagskrá fram til kvöldsins í kvöld en við vitum ekkert hvað á að vera á dagskrá á morgun. Við höfum heyrt um það að jafnvel verði ekki fyrirspurnafundur á miðvikudaginn þannig að hér er verið að umbylta öllu þingstarfinu vegna þvermóðsku og þrjósku þeirra sem keyra þessi vatnalög í gegn.

Hv. varaþingmaður sem kemur til starfa á Alþingi og hefur hér starfstíma upp á tvær vikur horfir þá fram á það, svo lengi sem þessi ríkisstjórn situr og beitir þessum aðferðum til að koma málum hér í gegn, getur setið hér í hálfan mánuð án þess að fá að taka þátt í einni einustu umræðu. (Gripið fram í: Um fundarstjórn forseta.) Það eru ekki utandagskrárumræður vegna þess að það hentar ekki hæstv. forseta (Gripið fram í: Fundarstjórn forseta.) — það er um fundarstjórn forseta þegar búið er að fella niður fyrirspurnafundi jafnvel á miðvikudögum, reglulega fyrirspurnafundi, og það er um fundarstjórn forseta, hv. þingmaður, þegar við vitum ekki einu sinni í dag, klukkan orðin átta eftir kvöldmat, hvað verður á dagskrá þingsins á morgun. Það er um fundarstjórn forseta. Þetta er síður þegar hv. varaþingmenn koma hér og geta horft fram á það í hálfan mánuð að þeir geti tekið þátt í umræðum um fundarstjórn forseta og ekkert annað, (Gripið fram í: Jú, borið af sér sakir.) einfaldlega vegna þess að hæstv. forsetar eru búnir að ákveða það að fyrirspurnafundur sé ekki, utandagskrárumræður séu ekki og hér skuli menn standa og sitja og ræða vatnalög þangað til tekst að koma þeim í gegn. (Iðnrh.: Það er það sem þið viljið.) Mér leikur forvitni á að vita hvort hæstv. forseti geti sagt mér hvort hér verður kvöldfundur á fimmtudaginn í næstu viku. (SigurjÞ: Já.)

(Forseti (BÁ): Forseti vildi gjarnan geta svarað þeirri spurningu en treystir sér ekki til þess á þessari stundu.)

Ég harma það að vita ekki hvort þingfundur verður fram á kvöld á fimmtudaginn í næstu viku vegna þess að fram undan hjá mér eru mjög áríðandi fjölskyldumálefni og ég hélt satt að segja, eftir þá áherslu sem (Forseti hringir.) nýr forseti setti á fjölskyldumál (Forseti hringir.) að maður gæti vitað það viku fram í tímann, (Forseti hringir.) herra forseti, hvort það yrði kvöldfundur.