132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Íbúðalánasjóður.

[13:35]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil gera grein fyrir málum Íbúðalánasjóðs eins og þau standa núna. Það er kunnara en frá þurfi að segja að innkoma bankanna á íbúðalánamarkaðinn og mikill vöxtur þeirra á undanförnum árum gefur tilefni til þess að ætla að þeir séu tilbúnir að bjóða íbúðalán til frambúðar og við þær aðstæður þarf að huga að því hvernig best verði hagað aðkomu hins opinbera að íbúðalánakerfinu.

Félagsmálaráðherra skipaði starfshóp í samráði við stjórn Íbúðalánasjóðs sem var falið að fara yfir stöðu mála og skila tillögum. Starfshópurinn taldi, ef horft yrði til frekari breytinga, að eðlilegt þætti að kanna til hlítar hvort rétt væri að þróa hlutverk Íbúðalánasjóðs í átt til heildsölubanka og lagði áherslu á að ef ákvörðun yrði tekin um að ráðist yrði í frekari breytingu á húsnæðiskerfinu yrði það gert með víðtæku samráði við þá sem málið varðar. Það samráð stendur nú yfir. Starfshópurinn vinnur af miklum krafti í þessu máli. Ég vil ekkert segja um hvenær frumvarp verður lagt fram. Ég á von á þeim tillögum starfshópsins inn á borð til mín.

En ég vil leggja áherslu á að það er númer eitt í mínum huga að Íbúðalánasjóður þjóni öllum landsmönnum. Tryggð sé, hverjar sem breytingarnar verða, íbúðalánaþjónusta við alla landsmenn og fólki sem tekur íbúðalán séu tryggð viðunandi kjör. Það er það sem við göngum út frá og við erum í samráði við alla þessa aðila sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi og það samráð stendur yfir þessa dagana.