132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Bréf frá formanni UMFÍ.

[14:06]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Stilling er mikilsverð í umræðu og málflutningi af öllu tagi. Það er rétt að forseti hafi það í huga þegar hér koma í stólinn þeir Rip, Rap og Rup, hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins Sigurður Kári Kristjánsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Birgir Ármannsson. Nú vantar bara þann fjórða í fjögurra manna klíkuna, nefnilega stjórnarformann Essó sem er fjarverandi, við skyldustörf á þeim vettvangi væntanlega. (DrH: Er þetta um fundarstjórn forseta?) Þetta er um fundarstjórn forseta. Það er rétt að forseti hlusti betur á þegar þessir menn tala en vera virðist. Allar áminningar forseta og öll hans ræðuhöld um stíl og orðfæri í ræðum við þessa umræðu, sem ég hef hér verið viðstaddur, beinast að stjórnarandstæðingum. Það er sérkennilegt að þær skuli alltaf beinast að stjórnarandstæðingum.

Það sem við höfum gert í þessari umræðu, við stjórnarandstæðingar, er að sýna fram á veikleika málsins. Við höfum lýst í gegnum það þannig að almenningi er að verða ljóst að hér er ekki fyrst og fremst um formbreytingar að ræða líkt og forsætisráðherra og aðrir félagar hans, m.a. hæstv. iðnaðarráherra sem enn situr í salnum, hafa haldið fram. Við höfum lýst eftir vatnsverndarlögunum í framhaldi af vatnatilskipun Evrópusambandsins. Það mál er augljóslega veikur punktur á stjórnarliðinu. Við höfum spurt eftir því af hverju Karl Axelsson, aðalhöfundur frumvarpsins, hafi borið því við að Kárahnjúkavirkjun og aðrar virkjunarframkvæmdir þyrftu á þessum lögum að halda. Við höfum spurt: Hvaða efnisbreytingar verða þeirra vegna?

Þannig höfum við í öllu þessu máli sótt á stjórnarliða. Við gerðum það í fyrra og gerum það núna líka. Hvernig svara stjórnarliðar? Jú, þeir svara með vanstillingu. Þeir stilla sig ekki, forseti. Þeir koma í stólinn og segja: ofbeldi, málþóf, kommúnismi, kúgun. Þeir koma hér í líki hæstv. iðnaðarráðherra og bera fölsun upp á einn hv. þingmann í salnum, Ögmund Jónasson. Nú koma þeir aftur með bréf frá UMFÍ og kalla blekkingar vegna þess að orðið hefur einhver misskilningur með þau samtök. Þau draga sig frá umsögn, sem þeim er fullkomlega heimilt.

Ef einhver sýnir hér að hann er ekki stilltur þá eru það þingmenn stjórnarliðsins, forustumenn stjórnarinnar og hinn frægi og frábæri hv. formaður iðnaðarnefndar Birkir Jón Jónsson, sem hefur staðið fyrir þessu öllu á annarra vegum.