132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Bréf frá formanni UMFÍ.

[14:28]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég var á fundi iðnaðarnefndar í morgun og þar kom þetta bréf á borð nefndarmanna frá formanni Ungmennafélags Íslands. Ég taldi að það hefði verið niðurstaðan að kannað yrði hvernig þessir hlutir væru og menn mundu svo sem ekkert vera að gefa sér eitthvað sérstakt um það fyrr en sú niðurstaða væri fengin hvort þarna hefði verið misskilningur eða eitthvað slíkt á ferð. Það er mjög óvanalegt að svona bréf komi og okkur fannst full ástæða til að farið yrði yfir það. Það kom mér þess vegna á óvart að málið skyldi komið hér inn í sali Alþingis með þeim hætti sem gerðist og ég ætla ekki að segja að það hafi verið af einhverjum annarlegum ástæðum þó það orð hafi verið notað. Ég taldi að við mundum fá þetta mál betur upplýst áður en lengra yrði haldið með það og menn mundu fá tækifæri til að velta því fyrir sér hvort eitthvað væri athugavert við þann misskilning sem greinilega hefur komið upp.

Svo var hitt, hæstv. forseti, af því að hv. þm. Pétur Blöndal talaði um að lög giltu ekki aftur fyrir sig og vatnalagafrumvarpið mundi ekki gilda að neinu leyti um Kárahnjúkavirkjun. Ég skal ekki fullyrða um það. En verði búið að setja þessi lög þá munu þau gilda um það eignarnám sem á eftir að fara fram hvort sem það er vegna Kárahnjúkavirkjunar eða einhverra annarra framkvæmda. Þau lög sem verið er að tala um að setja hér geta gilt að einhverju leyti um verkefnin þarna fyrir austan. Það er alveg greinilegt að það ferli sem þar er á ferðinni er öðruvísi en er í vatnalögunum. Hvort réttarstaðan verður betri eða verri fyrir bændur ætla ég ekki að segja. En það verður þó alla vega yfirlýsing frá þeim sem sömdu vatnalagafrumvarpið og kom alveg skýrt fram hjá þeim að þeir töldu að þetta hefði m.a. verið vandinn í vatnalögunum að eignarnámsheimildunum væri ekki nógu haganlega fyrir komið, erfitt að beita þeim og erfitt að eiga við þau. Orðalagið sem um það var haft var torf eða eitthvað slíkt, að komast í gegnum það hvernig það virkar allt saman á grundvelli vatnalaganna. Réttarstaða manna getur vel breyst hvað varðar eignarnám og það eignarnám hefur ekki farið fram sem viðkemur Kárahnjúkavirkjun. Það er alveg á hreinu. Menn vita að það standa yfir umleitanir og það hafa komið yfirlýsingar fram frá bæði þeim sem eru að fá vatn á sig og þeim sem eru að missa það frá sér, þannig að við vitum svo sem ekkert hvað er þarna fram undan. Ég bið hv. þingmann að hafa þetta í huga þegar hann veltir því fyrir sér hvort vatnalögin gildi um Kárahnjúkavirkjun.