132. löggjafarþing — 87. fundur,  16. mars 2006.

Munnleg skýrsla utanríkisráðherra um varnarviðræður Íslands og Bandaríkjanna.

[11:49]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Nú liggur fyrir að bandaríski herinn mun fara af landi brott með nær allan sinn viðbúnað. Þetta þarf ekki að koma á óvart því að þetta er rökrétt framhald þeirrar staðreyndar að Norður-Atlantshafið er öruggasti hluti heimsins í dag. Það eru auðvitað forréttindi að búa í slíkum heimshluta.

Ég hlýt að lýsa ánægju minni hér með að loks skuli vera komin niðurstaða í 11 ára samningaþóf sem leitt hefur verið af formönnum Sjálfstæðisflokksins, fyrst fyrrverandi forsætis- og utanríkisráðherra, og síðan hann hætti núverandi utanríkisráðherra. Niðurstaðan liggur fyrir, árangurinn er enginn. Þeir lögðu af stað í leiðangur, komust aldrei þangað sem þeir ætluðu sér og eru nú aftur á byrjunarreit.

Ástæðan fyrir því er augljós. Þeir lögðu upp með úrelta heimsmynd í farteskinu, röng samningsmarkmið og ranghugmyndir um eigin stöðu gagnvart bandaríska stjórnkerfinu.

Nú hefur það opinberast þjóðinni að ríkisstjórnin, undir þeirra forustu, hefur verið stefnulaust rekald í utanríkismálum. Allt frá árinu 1992 hefur legið fyrir að vegna breytinga í heimsmálunum teldu bandarísk stjórnvöld ekki lengur þörf á þeim varnarviðbúnaði sem hér var, það væri enginn óvinur á Norður-Atlantshafi og engin sýnileg ógnun úr þeirri átt.

Á samningafundi í ágúst 1993 lögðu Bandaríkjamenn fram þá tillögu sína að orrustuþoturnar, sem þá voru 12 talsins, mundu hverfa frá Íslandi. Í ágúst 1993. Af því varð þó ekki og þáverandi utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, og William J. Perry varnarmálaráðherra undirrituðu í janúar 1994 bókun við varnarsamninginn sem gerði ráð fyrir fækkun þeirra úr 12 í fjórar. Síðan Sjálfstæðisflokkurinn tók við þessum málum hefur ekkert gerst, enginn árangur náðst. Forustumenn Sjálfstæðisflokksins hafa að vísu farið margar ferðir til Washington og boðið hingað bandarískum ráðherrum og embættismönnum. Þeir hafa dregið íslensku þjóðina inn í stríðsrekstur í Írak í þeirri von að þeim yrði umbunað fyrir það í þessum samningaviðræðum. Þeir hafa talað eins og þeir einir gætu höndlað með þessi mál. Þeir hafa talið þjóðinni trú um að fyrrverandi forsætisráðherra væri í mjög góðum tengslum við Bush og núverandi utanríkisráðherra, Condoleezzu Rice. Þeir ættu leið fram hjá bandaríska stjórnkerfinu. Og hver er árangurinn? Enginn, mældur á þeirra eigin mælikvarða.

Árið 1993, í tíð Jóns Baldvins Hannibalssonar sem utanríkisráðherra, var unnin skýrsla um íslensk öryggis- og varnarmál. Síðan hefur lítið gerst í þeim málum, ef frá er talin ágæt greinargerð reyndar sem unnin var í tíð Halldórs Ásgrímssonar 1999. Engar úttektir eða rannsóknir hafa farið fram á þeim váboðum sem að íslenskri þjóð geta steðjað og hvernig skynsamlegast sé að bregðast við þessum váboðum. Þetta hefur verið vanrækt vegna þess að ríkisstjórnin hefur haldið dauðahaldi í fjórar úr sér gengnar herþotur og sagt að þær væru forsenda þess að hér væri hægt að tala um sýnilegar varnir.

Fyrrverandi utanríkisráðherra talaði skýrt í málinu þegar hann var forsætisráðherra og sagði að ef þetta næðist ekki gæti herinn einfaldlega farið. Núverandi utanríkisráðherra er hins vegar orðinn lítilþægari og segir að hinar sýnilegu varnir geti falist í æfingaaðstöðu og flugsveitum sem geti komið hér til skiptis.

Virðulegur forseti. Nú er tímabært að þessu linni. Það er engin ástæða til að Ísland sé æfingastöð fyrir Bandaríkjaher. Við verðum að horfast í augu við að því öryggissamfélagi sem við höfum tilheyrt, með Bandaríkjunum, er að ljúka. Við eigum að horfa til annarra átta. Það er tímabært að við Íslendingar mótum sjálfstæða utanríkisstefnu, skilgreinum þær ógnir sem að okkur geta steðjað og ákveðum hvaða viðbúnað þurfi til að bregðast við þeim. Við eigum að setja upp sjálfstæða rannsóknarstofnun um öryggis- og friðarmál og þverpólitíska öryggismálanefnd sem vinni að öryggismálum Íslands.

Það er engin árásarhætta í Norður-Atlantshafinu. Það er okkar gæfa. Í því felast miklir möguleikar. Við getum markað okkur stöðu sem herlaus þjóð og málsvarar friðar á alþjóðavettvangi. Við eigum að skipa okkur í hóp með þeim ríkjum sem vilja styrkja mannréttindi í heiminum og efla þjóðarrétt og virðingu fyrir alþjóðalögum og samningum. Við eigum að hugsa stærra og lengra en áður hefur verið gert í íslenskri utanríkisstefnu.

Á þetta hefur Samfylkingin ætíð lagt áherslu á Alþingi í umræðum um utanríkismál og hún mun gera það áfram. Okkar bíður það hlutverk að bregðast við breyttum aðstæðum í heiminum með því að móta nýja íslenska öryggisstefnu sem getur leyst hina úreltu og árangurslausu stefnu Sjálfstæðisflokksins af hólmi