132. löggjafarþing — 87. fundur,  16. mars 2006.

Munnleg skýrsla utanríkisráðherra um varnarviðræður Íslands og Bandaríkjanna.

[13:00]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegur forseti. Það hefur um margt verið athyglisvert að fylgjast með þessum umræðum hér í dag. Hér erum við að ræða grafalvarlegt mál sem varðar miklu um framtíðaröryggis- og varnarhagsmuni íslensku þjóðarinnar. Mér virðist umræðan af hálfu stjórnarandstöðunnar vera nokkuð tvískipt, annars vegar eru þeir sem koma bara hreint út og segja að þeir fagni þeirri niðurstöðu sem komin er. Það eru þeir aðilar sem alla tíð hafa verið á móti og andvígir samstarfinu við Bandaríkjamenn um varnarmál og á móti aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu. Þessir aðilar eru þrátt fyrir allt sjálfum sér samkvæmir.

Síðan eru hér líka þingmenn sem virðast ekki geta gert upp við sig í hvorn fótinn þeir vilji stíga í þessu máli, nota tækifærið og gagnrýna ríkisstjórnina, saka ráðherrana um dómgreindarbrest og annað þess háttar, en sitja svo kannski sjálf uppi með, eins og hv. formaður Samfylkingarinnar og forveri hennar, stjórnmálaflokk sem gat ekki einu sinni komið sér saman um það á landsfundi sínum hvort hann ætlaði yfirleitt að hafa nokkra stefnu í öryggis- og varnarmálum (Gripið fram í.) og hætti bara við það, hætti við að álykta um öryggis- og varnarmál. Það er kannski ekkert erfitt að átta sig á því, ef maður les gögnin frá þeim, því í plaggi sem ég hef undir höndum frá landsfundi Samfylkingarinnar, (Gripið fram í.) og hv. þingmönnum finnst svona hlægilegt, stendur, með leyfi forseta:

„Um afstöðu til herbúnaðar Bandaríkjastjórnar á Íslandi eru skiptar skoðanir innan hópsins,“ (Gripið fram í.) þ.e. þess hóps sem var að vinna að framtíðarstefnu fyrir Samfylkinguna. „Sumir vilja helst slíta öllu hernaðarsamstarfi við Bandaríkin, en aðrir vilja viðhalda því eins og kostur er.“ (Gripið fram í: … Davíð Oddsson …) Það er ekki nema eðlilegt að þessir aðilar, þessi stjórnmálaflokkur, geti ekki komið sér saman um neina stefnu í þessu máli. Það mál sem er hér til umfjöllunar er að sjálfsögðu miklu alvarlegra en svo að einhver orðaskipti eða undirbúningur á landsfundi Samfylkingarinnar skipti þar nokkru máli. (Gripið fram í.) Það er þannig, virðulegi forseti, að það er grundvallarskylda ríkisstjórnar í hverju landi, og ríkisvaldsins, að tryggja öryggi borgaranna, bæði inn á við og út á við. Samningurinn sem við gerðum við Bandaríkjamenn á sínum tíma um varnir Íslands hafði auðvitað að markmiði að tryggja varnir Íslands gagnvart ógn utan frá. Nú hefur heimsmyndin að sjálfsögðu breyst, það vitum við öll, og það er sennilega alveg rétt sem einhver þingmaður sagði hér í umræðunni, að það stafar engin hefðbundin árásarhætta að okkur hér í Norður-Atlantshafinu. Ég tel að það sé rétt, að Íslandi stafi engin hætta frá öðru sjálfstæðu ríki um þessar mundir, engin hætta sem falla mundi beint undir 5. gr. Atlantshafssáttmálans sem kveður á um gagnkvæma skyldur ríkjanna til að koma hvert öðru til hjálpar.

Það eru breyttar aðstæður og það er margs konar önnur ógn hér í okkar heimshluta, eins og hæstv. dómsmálaráðherra fór mjög vel yfir og sem sumt hvað heyrir undir hans ráðuneyti að glíma við. Ógnin hefur breyst, en vitum við hvernig hún verður eftir nokkur ár? Ég tók ekki betur eftir en svo að hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson hefði einmitt vitnað til þess að ógnin er breytileg. Vitum við hvaða afstöðu ríkisstjórnir og ríkisvald í þeim löndum sem áður voru okkur andstæð og andvíg munu hafa eftir 5, 10 eða 15 ár? Viljum við taka áhættuna af því að á breyttum tímum þá séu Íslendingar varnarlausir?

Auðvitað viljum við það ekki. Verkefnið er að búa þannig um hnútana að þjóðin verði ekki varnarlaus, (Gripið fram í: Er hún það núna?) hvort sem það gerist með samkomulagi í eitthvað breyttri mynd við Bandaríkin eða með öðrum hætti.

Það sem er mikilvægt við það sem kom fram í gær af hálfu Bandaríkjastjórnar var að sjálfsögðu sá kjarni málsins að Bandaríkin ætla ekki að hlaupa frá varnarsamningnum þó að þeir ætli að skipta hér um varnarviðbúnað í takt við það sem þeir telja að séu breyttar og nýjar aðstæður. (Gripið fram í.) (MÁ: Hvað kemur í staðinn? Hvað kemur í staðinn? Hvað sagði …?)

(Forseti (JóhS): Forseti vill biðja hv. þingmenn að gefa hæstv. utanríkisráðherra frið til að ljúka máli sínu.)

Það hefur verið afstaða okkar í ríkisstjórninni að við þyrftum að hafa hér sýnilegar lágmarksvarnir, tilteknar varnir sem hefðu þann fælingarmátt sem þyrfti til að hingað kæmu ekki andstæðingar eða óvinir okkar með einhverjum hætti sem við getum ekki séð nákvæmlega fyrir hver yrði. (Gripið fram í.) Þannig þurfa allar þjóðir að huga að vörnum sínum. Við höfðum talið að það yrði best gert með viðveru þeirra fjögurra orrustuflugvéla sem hér hafa verið til þessa. Það má þó auðvitað hugsa sér aðra útgáfu af slíkum vörnum, og viðræðurnar sem nú munu fara í hönd snúast nákvæmlega um það. Með hvaða hætti verður það gert, verður það gert með flugvélum sem ekki hafa hér fasta bækistöð eða fasta viðveru, heldur koma hingað með öðrum hætti eða í samstarfi við aðrar þjóðir í Atlantshafsbandalaginu? Þessum spurningum þurfum við að fá svör við og niðurstöðu um á næstu vikum og mánuðum.

Ég er alveg sannfærður um að ef til slíkra viðræðna verður gengið af beggja hálfu, og allra aðila hálfu með það að markmiði að ná viðunandi niðurstöðu mun hún nást. Þá skiptir engu máli hvað menn láta sér detta í hug í Samfylkingunni í Reykjavík.