132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[14:42]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég sat í þingsal í gær og hlýddi á hv. þm. Ögmund Jónasson koma með þá yfirlýsingu að hann teldi að núgildandi lög tryggðu of mikinn einkarétt á vatni. Hann vildi sjá meiri samfélagslega eign á vatni, þ.e. þjóðnýtingu. Við reiknum með því að stjórnarandstæðingar, sem eru á móti þessu frumvarpi, vilji þá koma með einhverja sameiginlega lausn.

Þá er það spurningin: Felst sameiginlega lausnin í því sem Vinstri grænir vilja, að þjóðnýta vatnið, eða felst það í því að viðhalda núgildandi lögum? Hvernig vilja menn sjá breytingar á þeim lögum sem eru í dag (Gripið fram í: Þjóðnýta bjórinn.) og færa þau til nútímans? Þetta er einföld spurning því maður vill gjarnan vita hvort stjórnarandstaðan er samstiga í lausnum. Eða er hún bara samstiga í að vera á móti? Það er töluverður munur á því. Menn geta verið á móti einhverju en svo hafa þeir engar lausnir til framtíðar. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort þetta sé líka stefna Samfylkingarinnar, að þjóðnýta vatnið frá því sem nú gildir.