132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[14:46]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við ræðum um frumvarp til vatnalaga við í þriðju umferð. Ég tel rétt að draga saman það sem komið hefur fram í umræðunni.

En áður en ég hef mál mitt verð ég lýsa yfir algerri furðu minni yfir því hvað Framsóknarflokknum gengur til með þessu frumvarpi. Hvað á þetta skylt við samvinnuhugsjónina sem flokkurinn er byggður á? Ég verð að segja að eftir að ég hef skoðað málið og sögu brautryðjenda samvinnuhugsjónarinnar virðast þeir sem eru í fararbroddi nú fyrir Framsóknarflokkinn á algerum villigötum. Það snýr ekki aðeins að vatninu, þeirri auðlind, heldur verðum við líka að líta til þess að flokkurinn hefur leynt og ljóst unnið að því að koma fiskveiðiauðlindinni í einkaeigu, m.a. undir forustu hæstv. forsætisráðherra. En þá var það gert með það að markmiði að vernda fiskinn.

Nú skal vatnsauðlindinni komið í sérstök not án þess að ræða um vatnsvernd. Það er því eins og menn séu hættir að nenna svo mikið sem tala um eitthvað annað markmið en að færa einfaldlega eignarhaldið í ákveðnar hendur. Hvað gengur mönnum til?

Menn halda því fram að engin breyting verði. En samt, þegar þeir skoða málið nánar, er um veigamiklar efnisbreytingar að ræða. Breytingin er engin, segja menn. Þeir sem eiga fasteignirnar, jarðirnar ættu að vera fylgjandi breytingunum. Það hefur oft komið fram í umræðunni að bændasamtökunum og veiðiréttareigendum er meinilla við þessar breytingar. Þessar stofnanir hafna þeim. Menn furða sig á því hvað mönnum gengur í raun til með þessu frumvarpi.

Því hefur einnig verið haldið fram að markmiðið sé að nútímavæða vatnalögin. Maður hefði haldið að þá sæjust merki um nútímaviðhorf í þessu frumvarpi, t.d. að tekin yrðu upp hnitakerfi við að afmarka eignarlönd. En svo er alls ekki heldur kemur fyrir óskiljanlegur lagatexti sem ég hef farið yfir, m.a. í 11. gr. þar sem segir orðrétt, með leyfi frú forseta:

„Nú vex gras upp úr vatni við lágflæði og fylgir vatnsbotn þá landi sem þurrt land væri.

Ef eyjar, hólmar eða sker eru í stöðuvatni fylgja þeim netlög sem áður segir. Nú á maður eyjar, hólma eða sker fyrir landi annars manns og er sundið mjórra en 230 metrar og ræður þá miðlína sundsins merkjum.“

Ég er á því að í stað þess að vera með svo illskiljanlegan texta hefði nútímavæðing sem eitthvað kvæði að gert ráð fyrir hnitum, sem eru notuð núna og víðast hvar til að afmarka og merkja inn á landakort. En þessi nútímavæðing sem menn tala um kemur hvergi fram. Þetta frumvarp er enn þá forneskjan hvað það varðar. Þess vegna stenst ekki talið um nútímavæðinguna.

En deilan snýst fyrst og fremst um hvað felst í að eiga vatn eða eiga rétt til að nýta vatn. Stjórnarliðar hafa sagt að þar sé enginn munur á en við í stjórnarandstöðunni höfum bent á að á því sé mikill munur. Þegar betur er að gáð hvað þetta frumvarp varðar þá kemur í ljós að ákveðnum nytjum er gert hærra undir höfði heldur en öðrum, þ.e. orkunýtingu vatns.

Eins og við höfum bent á hér í stjórnarandstöðunni er hægt að nýta vatn í fleira en að snúa túrbínu. Það virðist eina gagnsemin sem hæstv. iðnaðarráðherra sér í vatni, að snúa túrbínum og helst til að framleiða ál. En það er hægt að nýta vatn með öðrum hætti. Það kemur fram m.a. í umsögn Bændasamtakanna, sem leggjast gegn þessu frumvarpi framsóknarmanna. Mér finnst það ámælisvert að hæstv. landbúnaðarráðherra skuli ekkert minnast á það nema rétt með því að koma með samkvæmisinnlegg í atkvæðaskýringum um umsögn Bændasamtakanna, þeirra samtaka sem hann ætti að gæta hagsmuna fyrir. Í umsögninni segir, með leyfi forseta:

„Frumvarpið hefur nú verið yfirfarið á nýjan leik og kemur þá í ljós að athugasemdir Bændasamtakanna hafa verið að engu hafðar. Þær eru því sendar á ný og nefndin vinsamlega beðin um að íhuga þær vandlega.“

En ekkert gerist. Framsóknarflokkurinn gerir ekkert með umsögn Bændasamtakanna. Það hefðu áður þótt tíðindi en þykja ekki lengur. Svo virðist sem Framsóknarflokkurinn gangi helst fyrir því að hugsa um að snúa túrbínum sé hættur að spá í venjulegan landbúnað. Síðan eru gerðar veigamiklar athugasemdir við frumvarpið, m.a. þær sem ég hef gert að umtalsefni, m.a. að þynna eigi út hugtakið netlög. Með þeirri útþynningu er reynt að svipta jarðeigendur réttinum til að nýta fjöruborðið.

Mér finnst það í raun eitt af því sem hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem hefur verið mikill hvatamaður að því að virða eignarréttinn, ætti að standa að með okkur í stjórnarandstöðunni og bændum, að rétturinn til að nýta fjöruborðið verði ekki rifinn af þeim. Ég þekki ekki nokkur rök fyrir því að ganga svo hart fram, að taka þennan rétt af bændum til að veiða hrognkelsi og nytjafisk í fjöruborðinu, nema þá að Framsóknarflokkurinn sé hræddur við að opnuð verði lítil glufa, til að virða rétt bænda hvað þetta varðar, þá gangi það nærri kvótavitleysiskerfinu sem hæstv. forsætisráðherra er guðfaðir að. Það var staðfest, m.a. í Fréttablaðinu nú á dögunum, að hann hefði komið að því að semja orðalagið yfir það hvernig væri hægt að framselja fiskinn í sjónum. Voru menn hræddir við að þessi glufa mundi kollvarpa þessu kerfi. Þetta er virkilega sérstakt, að menn skuli vera svo hræddir, að vilja meira að segja meina mönnunum að nýta eignarlönd sín. Það er mjög undarlegt.

En deilurnar hafa snúist um muninn á því að eiga rétt á að nýta vatnið eða eiga vatnið. Við höfum bent á það í löngu máli að það yrði veigamikil breyting. Mér heyrist sem fáir stjórnarliðar reyni að mótmæla því að einhverju leyti. Í öðru lagi er deilt um hvort eitthvert vit sé í, þegar rætt er um framtíðarskipan vatnsmála, að undanskilja vatnsverndina. Ég er því ósammála. Helsta stofnun umhverfisráðuneytisins er okkur í stjórnarandstöðunni sammála. Öll samtök náttúruunnenda eru okkur sammála. En hæstv. iðnaðarráðherra horfir eingöngu á vatn í þeim tilgangi að snúa túrbínum og vill náttúrlega ekki að náttúruverndarsjónarmið verði rædd samhliða. Það gæti orðið til að það yrði einu álverinu færra í landinu. Það skyldi þó aldrei vera.

Að lokum ætla ég að nefna að deilurnar snúast einnig um það hve illa þetta frumvarp er unnið. Farið hefur verið í gegnum það í löngu máli að skilgreiningar séu oft sérkennilegar. Ég hef nefnt skilgreininguna á mannvirki og gerði það líka á síðasta þingi, þ.e. skilgreininguna: „Hvers konar manngerðar tilfæringar, t.d. hús, brú eða virkjun.“ Mér finnst þetta mjög sérstakt orðalag. Ég hef sagt að þegar menn breyta liðlega 80 ára gömlum lögum þá ættu þeir ekki að kasta til þess höndum heldur standa betur að því.

Ég ætla að láta máli mínu lokið, ekki vegna þess að þetta sé mál sem ekki er vert að ræða en ég tel hins vegar ekki vert að verja lengri tíma í það. Þetta frumvarp er andvana fætt. Ef fólkið í landinu vill áfram hafa eignarhald á vatninu og að hugsað verði fyrir almannahagsmunum hvað varðar fiskveiðiauðlindina og vatnið, sem við nýtum til drykkjar, þá hafnar það Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum í næstu kosningum. Þar sem þetta lagafrumvarp tekur ekki gildi fyrr en hálfu ári eftir næstu alþingiskosningar þá hefur fólkið í landinu enn þá val um hvort það vilji að í vatnalögum verði hugsað fyrir almannahagsmunum eða þröngum sérhagsmunum, líkt og gerst hefur varðandi fiskveiðiauðlindina.

Það skyldi þó aldrei vera að liðsmenn stjórnarliðsins séu einnig farnir að vakna upp við að þetta sé kannski ekki sniðugt. Þegar þing kemur hér saman á ný þá kann að verða þess fyrsta verk, hvaða ríkisstjórn sem verður, að nema einfaldlega þetta frumvarp úr gildi.