132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Innrásin í Írak.

[15:20]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er til lítils að horfa til framtíðar ef menn vilja ekkert af fortíðinni læra. Allir muna að ástæða innrásarinnar í Írak var grunurinn, óstaðfestur grunur um gereyðingarvopn sem þar áttu að vera. Sú var ástæðan fyrir stríðinu í Írak. Ástæðan eftir á var að koma Saddam Hussein frá völdum, það er öllum kunnugt um líka.

Það er víða um heim að finna menn sem má með fullum sanni kalla illmenni, menn sem ráða ráðum sínum, eru í ríkisstjórnum og fara illa með borgarana sína. Við getum nefnt Úsbekistan, við getum nefnt Súdan og Kongó. Hvað ætla þjóðir heims að gera í þeim málum?

Hins vegar liggur það fyrir, frú forseti, að lýðræðisvæðingin sem Bush-stjórnin ætlaði sér að sýna fram á að mundi takast í tilraunastofunni Írak hefur ekki tekist. Þrem árum síðar eru menn enn að segja sömu hlutina (Forseti hringir.) og þeir sögðu fyrir þremur árum.