132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Varnir gegn fisksjúkdómum.

596. mál
[21:19]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var svo sem ekki margt sem ég ætlaði að koma inn á, vildi aðeins hægja á hæstv. ráðherra því að þetta var farið að ganga svo greitt, hann var kominn á skeið. Við fáum nú þessi frumvörp inn í landbúnaðarnefnd og þar gefst tækifæri til að skoða þau nánar.

Ég vildi aðeins minnast á samráðsnefndir sem verða settar, bæði samkvæmt þessu frumvarpi og einnig í því síðasta sem hæstv. ráðherra mælti fyrir. Tíndir eru til þeir sem eiga að koma þar að og vera til ráðgjafar. Ég hefði viljað sjá að sú menntastofnun sem hefur með fiskeldisnám og fiskeldisrannsóknir að gera ætti aðild að þessum nefndum, þ.e. Hólaskóli. Menn tala hér um Hafrannsóknastofnun og gott og vel með það, en Hafrannsóknastofnun kemur í rauninni ekkert að eldi á ferskvatnsfiski í sjálfu sér. Þetta heyrir í stjórnsýslu undir annað ráðuneyti, rannsóknir og ráðgjöf heyra undir allt aðrar stofnanir. Gott og vel, allt í lagi að leyfa Hafrannsóknastofnun að vera þarna með, ekki skal ég amast við því, en mér finnst eðlilegra að sú mennta- og rannsóknarstofnun sem hefur með þennan málaflokk að gera af hálfu landbúnaðarráðherra, sem er Hólaskóli, tilnefni fulltrúa í þessar nefndir, hvort heldur er varðandi fisksjúkdóma eða fiskeldi sem við töluðum um áðan.