132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Almenn hegningarlög o.fl.

619. mál
[15:31]
Hlusta

Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum, lögum um meðferð opinberra mála og lögum um fjarskipti. Þar kemur samningur Evrópuráðsins um tölvubrot mjög svo við sögu.

Ég vil byrja á að fagna því að sjá loks þennan samning í heild sinni og þýddan. Það kemur mér mjög jákvætt á óvart hvað í rauninni við þurfum lítið að breyta lögum miðað við það hversu gríðarlega umfangsmikill þessi samningur er. Þar sem refsiréttarnefnd hefur samið þetta frumvarp mun verða farið yfir það í hv. allsherjarnefnd hvort þær tillögur teljast nægjanlegar. En það eru hérna nokkrir þættir sem mér finnst afar áhugaverðir og vil aðeins fjalla um í stuttu máli.

Í 5. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Í þágu rannsóknar máls þar sem rafræn gögn geta haft sönnunargildi er lögreglu heimilt að leggja fyrir þann sem rekur fjarskiptaþjónustu eða fjarskiptanet að varðveita þegar í stað tölvugögn, þar með talin gögn um tölvusamskipti.“

Ég man ekki betur en miklar umræður hafi orðið í þinginu um breytingu á fjarskiptalögum, en ég sé hérna að í rauninni er verið að herða refsingu.

Í athugasemdum við frumvarpið segir, með leyfi forseta:

„Til samræmis við 4. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að refsimörk til afhendingar gagna skv. b-lið 86. gr. laga um meðferð opinberra mála verði tveggja ára fangelsi og að málslið þess efnis verði bætt við b-lið 2. mgr. 87. gr. þeirra laga, …“

Þar er talað um tvö ár í stað sex mánaða eins og núna er gert ráð fyrir í 74. gr. fjarskiptalaganna. Það er því verið að taka miklu harðar á þessum tölvubrotum og er það í rauninni mjög vel.

Það sem mér finnst líka mjög áhugavert eru atriði varðandi barnaklámið því að í samningnum um tölvubrot er stór grein, þ.e. 9. gr., um brot er varða barnaklám. Það sem mér finnst áhugaverðast fyrir allsherjarnefnd að skoða er hvort einhver nýmæli eru í þeim samningi sem við ættum að setja inn í okkar lög.

Ég ætla aðeins að fara yfir 9. gr. í samningnum sem er staðfestur af okkar hálfu. Yfirskriftin er: Brot er varða barnaklám.

„1. Hver aðili skal setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að geta gert eftirfarandi háttsemi refsinæma samkvæmt landslögum sínum þegar um ásetning er að ræða og hún er höfð uppi án réttar:

a) að framleiða barnaklám í því skyni að dreifa því um tölvukerfi;

b) að bjóða fram barnaklám eða gera það aðgengilegt um tölvukerfi;

c) að dreifa barnaklámi eða senda það um tölvukerfi;

d) að útvega sér eða öðrum barnaklám um tölvukerfi;

e) að hafa í fórum sínum barnaklám í tölvukerfi eða vörslumiðli tölvugagna.

2. Í „barnaklámi“ felst, að því er varðar 1. mgr. hér að framan, klámefni sem sýnir:

a) ólögráða barn sem hefur uppi háttsemi sem er greinilega kynferðisleg;

b) manneskju sem virðist vera ólögráða barn“ — þ.e. við fáum nýtt inn, hún virðist vera ólögráða af þeim myndum sem sýndar eru — „og hefur uppi háttsemi sem er greinilega kynferðisleg;

c) raunsannar myndir sem tákna ólögráða barn sem hefur uppi háttsemi sem er greinilega kynferðisleg;

3. Hugtakið „ólögráða barn“, tekur, að því er varðar 2. mgr. hér að framan, til allra manna undir 18 ára aldri. Aðili getur engu að síður tilskilið lægra aldursmark, þó ekki lægra en 16 ár.“

Það sem mér finnst mikilvægt að skoða í nefndinni í tengslum við þetta er — af því að mikil umræða hefur verið um tölvur og barnaklám, og af því að frumvarpið er fyrst og fremst tengt þessum samningi — hvort það er eitthvað varðandi barnaklám og tölvur sem við gætum sett inn úr því að verið er að opna fjarskiptalögin á ný, eins lög um breyting á almennum hegningarlögum og lög um meðferð opinberra mála. Það er eitt af því sem mér finnst að við í hv. allsherjarnefnd ættum að fara svolítið í saumana á og fá þá til okkar Barnaheill sem hafa staðið fyrir skimun á klámsíðum. Ég held að það gæti skilað sér í mjög góðum umræðum í nefndinni og kannski ákveðinni lögskýringu í nefndaráliti og þá fyrst og fremst til að styrkja þennan þátt hjá okkar.

Það er heilmikið líka í samningnum um gagnkvæma aðstoð varðandi hlerun og að sjálfsögðu um áhrif samningsins um viðbætur og framsal sakamanna og annað. Þetta er því um margt mjög gagnmerkur samningur. Þess vegna kemur það mér, eins og ég sagði, hæstv. forseti, jákvætt á óvart að við skulum í rauninni ekki þurfa að hafa stærri breytingartillögur en hér fara fram. Mér finnst það þá segja að við höfum verið á réttri leið og verið framsýn.

Einnig er mjög mikilvægt að tekið er mjög vel á þagnarskyldu og gildissviði málsmeðferðarákvæða og hlerun, gagna og annað, og eins varðandi framsal. Hér er því um mjög gagnmerkan samning að ræða þó svo að hann hafi verið undirritaður 2001 en sé núna að öðlast skýrari staðfestingu því mér skilst að hann verði staðfestur í utanríkismálanefnd innan skamms.

En að ýmsu er að hyggja þegar við tökum málið fyrir hjá okkur og þá þarf líka að rifja upp umræður í þinginu sem urðu um fjarskiptaþjónustu, fjarskiptanetið og fjarskiptamálin. Það er af ýmsu að taka.

Það er líka mjög mikilvægt sem fram kemur í 6. gr. í þessum breytingum en þar segir, með leyfi forseta:

„Þeim sem rekur fjarskiptaþjónustu eða fjarskiptanet er skylt að verða við tilmælum lögreglu um aðstoð við rannsókn sakamáls, enda styðjist þau tilmæli við dómsúrskurð eða lagaheimild.“

Það er því algjörlega kveðið mjög skýrt á um dómsúrskurðinn eða lagaheimildina sem er afar brýnt því að við megum ekki gleyma lögunum um persónuvernd.

Það verður mjög fróðlegt að fara yfir þetta áfram í hv. allsherjarnefnd og fá aðila úr refsiréttarnefnd fyrir nefndina ásamt fleiri aðilum því að mér finnst þetta gefa örlitlar vísbendingar um að við gætum kannski tekið á fleiri þáttum en akkúrat þeim sem hér eru sem gætu orðið til góðs.