132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Merking matvæla.

633. mál
[13:02]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka góða umræðu um þessa fyrirspurn mína og einnig þakka ég ráðherra fyrir skjót og góð svör. Eins og kom fram er stutt síðan ég lagði þessa fyrirspurn fram og henni var svarað snarlega.

Það varð heilmikil umræða um uppruna vörunnar og eins og kom fram í jómfrúrræðu hv. þm. Jóhönnu Pálmadóttur þá skrá bændur allar upplýsingar um þá matvöru sem þeir framleiða. Það er alveg ljóst. En síðan þegar söluaðilar koma til skjalanna skilar merkingin sér ekki. Í ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar kom fram að neytendur hafa mikinn áhuga á að vita hvaðan varan er sem við fáum. Við vitum líka að íslensk matvara, hverju nafni sem hún nefnist, er mjög heilnæm og hún er mjög góð. Það er kannski þess vegna sem innflytjendur setja sig í þau spor að láta líta út fyrir að hún sé innlend. Það kom líka fram að við værum að velta fyrir okkur fánanum, hvort fánalitir ættu að vera á þessari vöru, en þegar íslenskir garðyrkjumenn merkja sína vöru koma einmitt fánalitirnir fram í merkingunni.

Í þessu felst líka ákveðin markaðssetning. Við skynjum það fyrir jólin þegar fólk fær að bragða á birkireyktu SS-hangikjöti, Hólsfjallahangikjöti, Húsavíkurhangikjöti, KEA-hangikjöti, Sambands-hangikjöti o.s.frv. Þetta er alveg það sama og gerist þegar menn fá að smakka á vínum. Það er alveg ljóst að ef menn vilja vita um uppruna vörunnar, hvaðan hún kemur, felur það í sér gríðarleg tækifæri varðandi markaðssókn. Ég hvet ráðherra til að vera vel á verði þannig að það sé alveg skýrt hvað sé innlend vara þegar hún er merkt og hvað sé innflutt vara.