132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[15:59]
Hlusta

Frsm. iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var á dögunum á fundi á Egilsstöðum þar sem farið var yfir raforkumálin í heild sinni og m.a. komu fulltrúar frá Landsneti þar á fund og fluttu mjög áhugaverðan fyrirlestur.

Í ljós hefur komið að með tilkomu Landsnets og þess góða starfs sem þar er unnið hefur afhendingaröryggi orkunnar aukist. Óvíða í heiminum er afhendingaröryggi eins gott og hér á landi og samhliða er kostnaður lægri. Öll þróun hjá Landsneti hefur sýnt að afhendingaröryggið er að verða betra og kostnaður samhliða því að veita þessa þjónustu hefur heldur verið að lækka.

Þannig að það hlýtur að segja okkur að það skiptir miklu máli að kaupendur þessarar orku séu öruggir um að fá orkuna sem þeir kaupa og við erum meðal fremstu þjóða á því sviði.