132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[18:07]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það kom nú fátt lítið út úr þessu andsvari hv. þingmanns. Mig langar að spyrja hv. þingmann þar sem hann talar um almannaþjónustu, hvað það sé í rauninni sem skipti almenning höfuðmáli í raforku, fá aðeins svör við því.

Ég tel að það sem skipti höfuðmáli sé afhendingaröryggið. Að orkan sé tryggð til fólks með þeim gæðum sem hún á að uppfylla, þá með spennu. Hvað er það sem skiptir næstmestu máli? Það er verðið og þjónustan sem fylgir. Ég treysti félagi sem er rekið sem hlutafélag enn betur til að gera það og ekkert síður en félagi sem er stofnun. Ekki síst þegar um er að ræða fleiri aðila. Með nýju raforkulögunum eru fleiri aðilar inni á markaðnum og þá er komin samkeppni.

Það er alveg augljóst, það er á öllum götuhornum, það sem vísar okkur veginn til samkeppni og þjóðfélagið er að þróast og eflast miðað við önnur ríki einmitt vegna þess að við höfum búið atvinnuvegina þannig út að þeir geta átt í samkeppni. Það er það sem skilar okkur fram á veginn.

En þetta staðnaða stofnanakerfi sem Vinstri grænir vilja hafa hér skilar okkur ekki fram á veg og mun engu breyta. Það má ekki virkja. Það má helst ekki gera neitt vegna þess að það muni hefta framgang landsins. Þessi málflutningur er með ólíkindum.