132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[23:13]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil inna hæstv. forseta eftir því hvenær hann hyggist ljúka þessum fundi. Ég á að fara að hefja ræðu og nú hefur verið boðað að hér verði kvöldfundur. Að mínu viti er kvöldið að vísu liðið en sumir hafa tilhneigingu til að teygja kvöldið til miðnættis. Ég held að enginn geti þó leyft sér að skilgreina kvöldið lengur en það. Þess vegna vildi ég fá að heyra hjá hæstv. forseta hvenær kvöldinu ljúki hjá honum miðað við þá starfsáætlun sem lögð hefur verið fyrir daginn.

Ég get svo sem hafið mál mitt en mér finnst mjög óþægilegt að vita ekki áður hvenær forseti hyggst láta þessari dagskrá ljúka. Ég gæti meira að segja, þó ég hefji ræðu mína á eftir, boðist til að gera hlé á ræðunni þannig að forseti geti staðið við það að hér verði einungis kvöldfundur. Ég leyfi mér að inna hæstv. forseta ítrekað eftir því hvenær gert sé ráð fyrir að þessum kvöldfundi ljúki.