132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[13:50]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við erum að ræða hér um að breyta Rafmagnsveitum ríkisins úr stofnun í hlutafélag. Ef allt væri með felldu væri auðsótt mál að breyta þessari stofnun í hlutafélag en því miður er það svo að ekki ríkir traust til þeirra sem á halda, til framsóknarmanna, hvað varðar þessi mál. Það er einfaldlega orðið svo að það er ekki hægt að koma einföldum skipulagsbreytingum í gegnum þingið vegna þess að Framsóknarflokkurinn hefur einfaldlega fyrirgert trausti sínu hvað varðar hlutafélög í eigu hins opinbera.

Einhver vildi kalla Framsóknarflokkinn öfgaflokk í einkavæðingu. Ég vil kannski ekki kalla hann það enn sem komið er en mér finnst samt sem áður flokkurinn vera orðinn svo heftur í einhverri hugmyndafræði að hann sést ekki fyrir. Ég er á því að það sé mikið til í því að menn verði að horfa á þetta frumvarp í breiðara samhengi, horfa á það í því samhengi hvernig stjórnarstefna umliðinna ára hefur í rauninni meðhöndlað eigur almennings.

Ég vil nefna hér að það er auðvitað ekki eðlilegt þegar menn hafa verið að einkavæða og koma eignum ríkisins út, að þá sé það gert þannig að allt lykti af spillingu. Við getum nefnt Búnaðarbankann þar sem flokkurinn kom bankanum í hendur manna sem eru nátengdir flokknum með því fororði að það væri í tengslum við kjölfestufjárfesti frá Þýskalandi sem síðan gufaði upp og reyndist einungis vera orðin tóm þegar betur var að gáð og nú veit ég ekki betur en þetta sé til gaumgæfilegrar skoðunar hjá ríkisendurskoðanda. En ég vona að hann geri nú betur en þegar hann fór yfir hæfi Halldórs Ásgrímssonar þegar hann fann það út að hann væri algerlega hæfur þegar hann stóð í því að selja nánast sjálfum sér eða tengdum aðilum bankann. Fleira má nefna ...

(Forseti (SP): Forseti ætlar að biðja hv. þingmann um að gæta orða sinna og gæta þess líka að ávarpa forsætisráðherra með tilhlýðilegum hætti.)

Ég skal gæta þess að ávarpa hann með tilhlýðilegum hætti, hæstv. forsætisráðherra, en ég átta mig kannski ekki á því hvar ég fór út af sporinu. Gæti forseti bent mér á það þannig að ég geri ekki sömu mistökin aftur? — Það virðist ekki vera svo þannig að ég átta mig ekki alveg á hvar ég missteig mig en ég ætla að vonast til þess að ég hafi gætt hófs, en þetta eru mál sem hafa verið uppi í þjóðfélaginu og tengjast þessu máli. Almennt erum við í Frjálslynda flokknum sammála því að hlutafélagavæða eins og kostur er en þegar það er gert á þann hátt sem verið hefur á umliðnum árum þá er það mjög vafasamt og menn verða að horfa á hlutina í því ljósi. Ég vonast til þess að okkur hv. þingmönnum leyfist að fara hér yfir þá sögu og forsögu þessara mála.

Ég vil líka nefna söluna á Íslenskum aðalverktökum, ef það er óhætt. En það kom m.a. fram í ágætri skýrslu Ríkisendurskoðunar að það urðu deilumál og það varð kærumál sem var vísað til Fjármálaeftirlitsins og í samantekt Ríkisendurskoðunar á því máli kom fram að menn biðu eftir úrskurði um hver niðurstaða Fjármálaeftirlitsins yrði en hún var ekki komin þegar skýrslan var gefin út. En síðan kom á daginn að það hafði fallið úrskurður og sá sem hér stendur óskaði eftir að sjá hver úrskurðurinn var en honum var neitað um það af Fjármálaeftirlitinu. Það er líka athyglisvert að það var einmitt einn sem sat í einkavæðingarnefndinni sem eignaðist þennan hlut hins opinbera í Íslenskum aðalverktökum. Mér finnst það vera vel þess virði að fara í gegnum það mál og ég hef óskað eftir því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál skeri úr um hvort ég fái umbeðnar upplýsingar, þ.e. um hverjar lyktir urðu í deilumáli sem urðu uppi þegar eigur almennings voru seldar einum af nefndarmönnum í einkavæðingarnefnd. Mér finnst það vera sjálfsögð spurning og menn eiga að ræða það í þessu samhengi.

Ef við tölum um það sem er jákvætt við þetta frumvarp þá virðist samkvæmt 3. gr. frumvarpsins vera nokkuð tryggt að þetta félag verði ekki selt nema það komi til kasta þingsins. Ég get ekki skilið 3. gr. með öðrum hætti en þannig. Þetta frumvarp er að mörgu leyti skothelt hvað það varðar að það er ekki hægt að láta fara fram brunaútsölu á þessu til einhverra hópa, þetta þarf a.m.k. að koma til kasta þingsins.

Það er eitt sem verður að fara yfir í þeirri hugmyndafræði sem rekin er af núverandi ríkisstjórn, og sérstaklega af Framsóknarflokkunum, en það er að menn gleyma algerlega praktískum málum í þessu ferli. Ég vil að hv. formaður iðnaðarnefndar svari mér því hvaða máli þetta skipti fyrir bónda í Húnavatnssýslu sem kaupir raforku af Rarik. Verður einhver lækkun á orkunni við að samþykkja þetta frumvarp? Allar breytingar sem hafa orðið á raforkulögunum á umliðnum árum hafa leitt til hækkunar á raforku til bænda og þess vegna finnst mér það sanngjarnt að hv. formaður iðnaðarnefndar geri okkur grein fyrir því hvað gerist, hvers vegna mun verðið lækka? Hann gaf sér að það yrði með samkeppni, að þá mundi verðið lækka. En við megum ekki gleyma því að Rarik starfar á þeim markaði þar sem fyrst og fremst er dreifiveita þannig að hér er um einokunarrekstur að ræða, ekki samkeppnisrekstur. Það kemur fram í gögnum málsins að samkeppni ríkir einungis við framleiðslu raforku en ekki við dreifingu rafmagns þannig að við erum í rauninni að setja reglur um einokunaraðstöðu. Það eru einungis 19 megavött sem Rarik framleiðir þannig að þetta fyrirtæki mun ekki taka þátt í samkeppni, hv. formaður iðnaðarnefndar, heldur er hér fyrst og fremst um einokunarrekstur að ræða. Það sem við í Frjálslynda flokknum höfum því gagnrýnt og getum tekið undir með Samfylkingunni, sem hefur lagt fram frumvarp um upplýsingaskyldu hlutafélaga, er að þegar þetta frumvarp verður samþykkt þá verður miklu erfiðara að fá upplýsingar um rekstur þessarar starfsemi sem er einokunarstarfsemi vegna þess að það er verið að nema upplýsingalög úr gildi. Það hefur einfaldlega sýnt sig í svörum frá hæstv. ráðherrum, m.a. hæstv. núverandi utanríkisráðherra, formanni Sjálfstæðisflokksins, að hann vill ekki veita upplýsingar þegar sá gállinn er á honum hvað varðar hlutafélög í eigu hins opinbera, meira að segja þegar verið er að spyrja að því hvort fyrirtæki fari að samkeppnislögum. Þetta hefur ítrekað komið fram.

Þess vegna er ég á því að menn þurfi að svara því hvaða máli það skipti fyrir bóndann í Húnavatnssýslu að samþykkja að þetta verði hlutafélag. Hvers vegna á verðið að lækka? Eða hvaða máli skiptir það verkstæðiseigandann, á Borðeyri, sem hefur fengið 30% hækkun á orkureikningnum sínum við að hita verkstæðishúsið með raforku?

Hæstv. iðnaðarráðherra hefur sagt að með breytingunum á raforkulögunum sé kerfið orðið gegnsærra. Að vísu er búið að nema alla afslætti úr gildi. En er það orðið gegnsærra fyrir raforku sem er notuð til stóriðju? Nei, alls ekki. Þar er enn þá sama leyndin. Það er vert velta því fyrir sér að það var gefin út skýrsla af sjálfum hæstv. iðnaðarráðherra og í henni kennir ýmiss fróðleiks en samt greinir hún ekki frá aðalatriðum. Það er það sem mér finnst á bjáta hjá ríkisstjórninni að hún fer ekki yfir aðalatriðin. Fólki er nokkuð sama hvort Rarik heitir háeff eða er stofnun en ekki hvers vegna rafmagnsreikningurinn er alltaf að hækka. Það er það sem þarf að gera grein fyrir: Hvers vegna er raforkureikningurinn að hækka og munu þessi lög leiða til þess að hann lækki? Ég hef ekki séð það og hef því orðið fyrir nokkrum vonbrigðum. Þegar forstjóri Landsvirkjunar var inntur eftir því hvers vegna ekki hefði orðið lækkun á raforkureikningum landsmanna, þá sagði hann að það væru öfug samlegðaráhrif. Ég velti því fyrir mér að spyrja hv. formann iðnaðarnefndar, hvað mun verða þegar búið er að hlutafélagavæða með þessu frumvarpi, sem maður getur svo sem fallist á ef það koma tilhlýðilegar skýringar frá formanninum, hvaða áhrif munu verða frá samkeppnisumhverfi fyrirtækis sem er fyrst og fremst í einokunarrekstri? Ég átta mig ekki fyllilega á því en ég er opinn fyrir því að hlusta á rök formannsins.

En upp úr þessari umræðu stendur einkum að menn horfa ekki á þessi praktísku atriði, menn eru reknir áfram af einhverri hugmyndafræði. Ég var búinn að lofa forseta þingsins því í gær þegar hann frestaði umræðunni og hafa stutta ræðu og ég vil endilega standa við orð mín og geri það. Ég vil leggja áherslu á aðalatriðið. Það er að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa ekki gert grein fyrir því hvað hækkanirnar hafa orðið miklar á almenna markaðnum, þær hafa verið tíndar til í þessari skýrslu, hækkun hér og lækkun þar, þannig að við lestur hennar verður maður engu nær. Þetta er mjög alvarlegt. Einnig hefur komið fram í umræðu hér þegar verðlagning á annarri orku, heitri orku, var rædd, þá sagði hæstv. iðnaðarráðherra að gerð yrði samræmd gjaldskrá hjá Rarik frá og með síðustu áramótum en við það hefur ekki verið staðið. Ég fer fram á að menn einbeiti sér annað veifið ekki einungis að einhverri hugmyndafræði og að koma einhverju í hlutafélagaform, heldur fari að leysa hin praktísku atriði. Hvers vegna fær fólkið á landsbyggðinni hærri rafmagnsreikninga? Hvað hefur hækkunin orðið mikil í almannakerfinu sem samkeppni á að ríkja um? Ef allt hefði verið með felldu hefði átt að sjást lækkun. Við sem búum á landsbyggðinni og fáum rafmagnsreikninga inn um lúguna og greiðum samviskusamlega, við viljum fá svör við þessu, við viljum fá skýringar. Fáum við þær?