132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Lenging flugbrautarinnar á Akureyri.

519. mál
[13:14]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir vekur hér athygli á mjög brýnu máli fyrir Norðurland sem er lenging flugbrautarinnar á Akureyri sem gæti aukið möguleika Akureyrarflugvallar til að taka á móti flugvélum og sinna flugumferð. Það er ábyggilega eitt af stærstu málunum fyrir Norðurland að þetta verði gert.

Ég inni hæstv. ráðherra enn frekar eftir því hvenær sé að vænta niðurstöðu þessarar skýrslu eða þarfagreiningar sem hér var spurt um og talin er forsenda fyrir þessari framkvæmd. Ég tek alveg eindregið undir góð orð hæstv. ráðherra um að leggja áherslu á öflugt innanlandsflug og þá stefnu hæstv. ráðherra að bjóða út þær flugleiðir sem ekki bera sig til að halda þar uppi þjónustu tel ég mjög góða en við þurfum að styrkja og efla Akureyrarflugvöll.