132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Kvennaskólinn á Blönduósi.

605. mál
[14:57]
Hlusta

Ísólfur Gylfi Pálmason (F):

Virðulegi forseti. Hér hreyfir hv. þm. Jón Bjarnason mjög merkilegu máli. Það er í raun og veru nátengt öðru máli sem við fjöllum um í dag, þ.e. um gamla héraðsskólahúsið á Laugarvatni. Þessum húsum öllum fylgja gríðarlega miklar tilfinningar. Þau eru merkileg fyrir byggingarlistina á Íslandi og þeim fylgir líka merkileg saga. Hvað varðar húsmæðraskólana á Íslandi þá hreyfði ég því máli fyrir nokkrum árum og spurði hvað orðið hefði af öllum þeim listaverkum sem fylgdu þessum húsum og menn hafa ekki getað svarað því. Það hefur ekki verið passað nægilega vel upp á það, a.m.k. í sumum þessara húsa, hvað orðið hefur af gríðarlega mörgum gjöfum sem gefnar hafa verið, listaverkum, handverki og þess háttar. Við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að finna þessum húsum verkefni. Spurningin er (Forseti hringir.) að finna þau verkefni.