132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Gamla héraðsskólahúsið á Laugarvatni.

632. mál
[15:17]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þetta merka hús á Laugarvatni er hluti af sterkri ímynd þess héraðs en auk þess líka menningarlífs landsins alls eins og við ræddum áðan um Kvennaskólahúsið á Blönduósi, sem er líka afar sterkur og mikilvægur þáttur í ímynd þess héraðs, bæði húsið sjálft, starfsemi þess á hverjum tíma, saga þess og sú menning sem það hefur að geyma. Þess vegna eigum við ekki að víla það fyrir okkur að halda þessum húsum við þannig að þau geti a.m.k. hið ytra borið fulla reisn og með ytri reisn verða þau líka aðdráttarafl fyrir öfluga starfsemi sem þar getur verið stolt til húsa. Allt fer þetta saman. (Forseti hringir.)

Ég tek því eindregið, frú forseti, undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram varðandi þessi hús og stöðu þeirra.