132. löggjafarþing — 96. fundur,  29. mars 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[17:06]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að tjá mig um atkvæðagreiðsluna í þessu máli og lýsi því jafnframt yfir að ég hef miklar efasemdir varðandi málið. Þeir þingmenn sem talað hafa á undan mér hafa í raun og veru lýst því ágætlega. Allt frá því að ég sá þetta frumvarp fyrst læddist að mér sá illi grunur að hér væri vont mál á ferðinni. Sá grunur hefur ekki minnkað. Ég skil ekki hvað gerir það að verkum að svo mikið liggi á að afgreiða málið í gegnum þingið. Mjög alvarlegar spurningar hafa vaknað um það hvort við séum að gera hér rétt eða rangt.

Ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að taka undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram, að málið verði tekið fyrir aftur í allsherjarnefnd en að iðnaðarnefnd fái líka að skoða málið og það komi ekki aftur til 3. umr. fyrr en að mjög vandlega athuguðu máli og að kallaðir verði á fund þessara nefnda færustu lögspekingar okkar í þessum málum til að skýra hvaða álit þeir hafi á þeim gjörningi sem hér er að fara fram.

Ég ætla ekki að fara nánar út í málið efnislega hér og nú en lýsi því yfir að ég mun sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu.