132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Viðhald sauðfjárveikivarnagirðinga.

582. mál
[18:12]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni góð brýningarorð til mín og okkar í landbúnaðarráðuneytinu og yfirdýralæknisembættinu og þá hvatningu sem hann hefur flutt þingheimi um þetta gríðarlega alvarlega verkefni sem menn hafa sett lög um.

Vissulega er það svo að þingið lætur heilmikla peninga árlega til baráttu við þennan sjúkdóm og ber að þakka það vel.

Ég trúi að hægt sé að ná einhverjum breytingum fram í þessu. En að því verki loknu verða menn að fylgja því vel eftir að þær línur og þær varnir sem menn hafa sett upp standi og séu í góðu lagi. Bæði að girðingar og varnarhólfin búi við það öryggi að ekki sé mikil hætta á að inn á þau komi fé frá svæðum þar sem sjúkdómar eru. Og síðan er þetta stóra mál sem okkur ber sérstaklega að hafa í huga, ákveðin svæði sem eru algerlega riðufrí. Okkur ber að leggja allan kraft í að verja þau því að þau eru gríðarleg auðlind í baráttunni við þennan sjúkdóm. Það skiptir miklu máli.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa brýningu og hina ágætu umræðu.