132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[13:30]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls þakka hæstv. utanríkisráðherra yfirferð um utanríkismálin almennt og af sjálfu leiðir, eins og hæstv. ráðherra vék að í ræðu sinni, að brottför varnarliðsins hefur orðið með þeim hætti að þetta er mál sem eðlilega er ofarlega á baugi.

Það hefur auðvitað valdið nokkru uppnámi hvernig Bandaríkjamenn stóðu að því að tilkynna okkur nánast einhliða að þeir mundu fara með herafla sinn og viðbúnað af landi brott á haustdögum. Ég held að enginn hafi búist við að þetta mál mundi bera að með þeim hætti sem það bar að. Hinu er ekki að leyna, hæstv. forseti, að m.a. sá sem hér stendur og fleiri í mínum flokki vöruðum strax við því sumarið 2003 að mjög margt benti til að Bandaríkjamenn mundu innan tíðar stefna á að fara með herinn og viðbúnað af landinu og færa herstyrk sinn til í veröldinni. Það er jú einmitt það sem hefur gerst og hæstv. utanríkisráðherra hefur svo sem gert grein fyrir því í ræðu sinni, sem eðlilegt er, að viðhorf til hernaðarvarna og átaka mótast af því að sem betur fer hefur verið frekar friðvænlegt í okkar heimshluta á undanförnum árum. Eftir fall Sovétríkjanna sálugu er auðvitað komin upp algerlega ný staða hér á norðurhluta hnattarins og á okkar svæði.

Það breytir hins vegar ekki þeirri skoðun okkar í Frjálslynda flokknum að við viljum hafa samstarf innan Norður-Atlantshafsbandalagsins og við viljum að Ísland sé í því bandalagi. Ég tel, hæstv. forseti, að NATO hafi átt sinn þátt í hversu friðvænlegt hefur verið í heimshluta okkar á undanförnum árum og áratugum. Við viljum sem sagt halda samstarfi við aðrar þjóðir innan Norður-Atlantshafsbandalagsins. En við teljum, eins og við létum í ljós þegar sumarið 2003, að eðlilegt væri að stjórnvöld færu að kanna aðrar áherslur í varnarmálum miðað við það sem mönnum sýndist geta dregið til varðandi aðstöðu Bandaríkjanna hér á landi og áherslur Bandaríkjamanna um hvar herafli þeirra ætti að vera staðsettur í veröldinni. Þá einnig með tilliti til þess auðvitað, að Bandaríkjamenn hafa verið mjög tengdir inn í átök eins og í Afganistan og Írak og það er á því heimssvæði sem ófriðlegast er í veröldinni, hæstv. forseti.

Þess vegna er ekki óeðlilegt að Bandaríkjamenn líti til þess hvar þeir vilja hafa herafla sinn staðsettan. Ég held að við Íslendingar getum verið sammála um að við getum ekki haldið því beinlínis fram, eins og nú horfir í okkar heimshluta, að hér sé ástæða til að hafa mikinn hernaðarviðbúnað. Þótt úr honum hafi verið dregið á undanförnum árum þá hefur íslenska þjóðin löngum verið þeirrar skoðunar að það væri ef til vill ekki nauðsynlegt að hafa hér her á friðartímum. Það hygg ég að hafi áður og fyrr átt við alla stjórnmálaflokka, hvort sem sú skoðun er nú breytt í núverandi ríkisstjórnarflokkum eða ekki, að hér þurfi að vera her einnig á friðartímum.

Við þurfum hins vegar, hæstv. forseti, að hafa varnarviðbúnað og fram hjá því verður ekki litið að sá varnarviðbúnaður snýr kannski að öðrum þáttum en áður voru meðan kalda stríðið var hér og við áttum ef til vill von á átökum hér milli ríkja á norðurslóðum. Það er algjörlega ljóst að við getum ekki séð fyrir, hvorki Íslendingar né aðrar þjóðir, hvar hin nýja vá í veröldinni lendir. Við gátum ekki séð fyrir árásina á Bandaríkin 11. september og við gátum ekki séð fyrir árásina á Breta í London né árásina á Spánverja. Þetta er auðvitað hin nýja hætta sem við stöndum frammi fyrir að hryðjuverkasamtök sem einhverra orsaka vegna hyggjast hafa áhrif með ofbeldisaðgerðum geta borið niður þar sem þau telja að vígstaða sé. Í því sambandi má t.d. minna á að ákveðnar teikningar sem birtar voru í dönskum blöðum hafa vakið ákaflega hörð viðbrögð og jafnvel svo að fólki í Danmörku hafi verið hótað lífláti þess vegna. Þannig að viðhorfin eru ýmis í veröldinni og margir telja því miður, að ofbeldi sé lausnin eða svarið við því ef fólk hefur misjafnar skoðanir. Við Íslendingar þurfum að ganga út frá því að þannig eru viðhorf fólks í veröldinni og við getum ekki sagt hér, þótt við séum á eyju úti í miðju Atlantshafi, að slík viðhorf snerti okkur Íslendinga ekki. Það snerti jú alla heimsbyggðina þegar ráðist var á Bandaríkin eins og menn muna.

Hitt er annað mál, hæstv. forseti, að við í Frjálslynda flokknum teljum að það eigi að leita samstarfs eins og staðan er nú við nágrannaþjóðir okkar um nokkuð af því sem m.a. hefur verið sinnt af Bandaríkjamönnum hér á landi og vil ég þá sérstaklega nefna öryggisþjónustu á hafinu, þ.e. rekstur þyrlubjörgunarsveitarinnar sem hefur sýnt sig að vera mikill öryggisstuðull fyrir okkur Íslendinga og sjófarendur almennt hér um Norður-Atlantshafið, að hafa getið treyst á að þessi þyrlusveit Bandaríkjamanna væri til staðar á Keflavíkurflugvelli. Það er auðvitað þannig að sá viðbúnaður sem við höfum hér hjá Landhelgisgæslunni með þyrlum okkar og góðum mannafla, hefur ekki náð að veita þá þjónustu sem Bandaríkjamönnum hefur verið kleift að veita með sinni tækni.

Það er algjörlega ljóst, hæstv. forseti, að við munum á næstu árum taka á okkur þann kostnað að reka alþjóðaflugvöllinn í Keflavík og allt sem því fylgir. Ég held að enginn ágreiningur sé með þjóðinni um að þannig muni það verða. Brottför varnarliðsins af Keflavíkurflugvelli hefur hins vegar margs konar áhrif, einkum á Suðurnesjum í atvinnulegu tilliti þó að ég haldi að þegar fram í sækir, þá verði til fjöldamörg störf sem tengjast bæði eftirlits- og öryggishlutverki okkar frá Keflavíkurflugvelli og eins að reka flugvöllinn og ég tala nú ekki um vaxandi ferðamannaþjónustu. Þannig að ég hygg að innan tiltölulega fárra ára, eða sem vonandi styst tíma, muni fyllast í þau skörð sem tapast núna vegna brottfarar hersins að því er varðar störf. En það er hins vegar annað mál sem við verðum að sameinast um, stjórnvöld og verkalýðs- og sveitarfélög á Suðurnesjum að reyna að takast á við.

Ég vil hins vegar í lok ræðu minnar, hæstv. forseti, gera að umræðuefni mál sem ég held að skipti ákaflega miklu máli fyrir okkur Íslendinga í framtíðinni. Það eru mál sem m.a. hæstv. utanríkisráðherra vék að í ræðu sinni þar sem hann segir á þá leið, að það þurfi m.a. að líta til ógna á borð við farsóttir og mengunarslysa og að hagsmunagæsla þjóða þurfi að snúa að því. Það er algjörlega rétt, við munum væntanlega á næstu árum og jafnvel innan mjög skamms tíma, sjá risastór gas- og olíuflutningaskip sigla hér fram hjá ströndum okkar. Af þeim flutningum stafar auðvitað hætta. Norðmenn hafa valið sér þá leið að marka þessum skipum ákveðnar fastar siglingaleiðir sem eigi eru nærri strönd en 50 sjómílur. Í framtíðinni munu siglingar með olíu og gas úr norðurhluta Barentshafs og alla leið austan úr hafsvæðum norður af Rússlandi, Karahafi, að öllum líkindum liggja mjög nærri Íslandsströndum. Sennilega að miklu leyti norðan við landið vegna siglingar eftir sporbaug sem er stysta leiðin milli Barentshafsins og markaðssvæða í Ameríku.

Með minni ís hér við land, eins og spáð er á komandi árum, er næsta víst að þessi siglingaleið mun verða tekin í notkun fyrir þessa farma af olíu og gasi. Hér er um að ræða gríðarlega stór skip sem munu flytja þennan varning og það þarf verulega mikil viðbrögð til að aðstoða slík skip ef slys ber að höndum. Oft er sagt að ef slys geti orðið þá verði það. Það verður örugglega einhvern tíma, því miður.

Ég held að við þurfum að huga að því fyrr en seinna, hæstv. forseti, og hefði náttúrulega alltaf mátt huga að því, sérstaklega ef smíða á nýtt varðskip, hvort hægt sé að gera það svo öflugt til dráttar að það gæti dregið stór og þung skip eins og mörg hundruð þúsund tonna olíu- og gasflutningaskip. Þetta eru skip sem rista allt að 20 metrum og það þarf meira en lítið afl til að hreyfa þau. Við höfum séð einn dráttarbát hér við land sem dró skip af strandstað við suðurströndina sem væri sennilega af þeirri stærð sem hér þyrfti að koma til. En það þarf að bregðast við þessu fyrr en seinna hæstv. forseti. Þessar siglingar eru á næsta leiti og ég tel að varðandi öryggismálin, siglingaleiðirnar og mengunarmálin sem geta fylgt siglingum skipanna þá eigum við að taka upp víðtækt samstarf við Norðmenn og Rússa að þessu leyti. Ég heyrði í ræðu hæstv. utanríkisráðherra að hann lýsti því, eftir viðræður við Rússa nýverið, að þeir hefðu áhuga á auknu samstarfi við okkur. Ég held að við ættum að taka því fegins hendi, einkum því er lýtur að þeim atriðum sem snúa að skipaflutningum með hættuleg efni í norðurhöfum því þar þarf að skipuleggja vel og það þarf að gera það í samstarfi við aðrar þjóðir, hæstv. forseti.