132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Fundarstjórn.

[12:37]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ekki byrjar það nú vel, þinghaldið, eftir páskaleyfi. Mér heyrist sem hæstv. forseti ætli sér að taka þingheim og henda honum ofan í þrælakistuna, skella lokinu aftur og snúa lyklinum í lás. Og við verðum hér sennilega fram að kjördegi 27. maí næstkomandi. Gott og vel.

Ég lýsi hins vegar eftir því að haft verði samráð við stjórnarandstöðuna en líka stjórnarþingmenn um það hvernig við hyggjumst ná landi varðandi þinghaldið nú á vordögum. Ég tel það mjög brýnt. Hér hefur ítrekað komið fram að mörg stór og þung mál bíða afgreiðslu. Ég hygg að það væri okkur öllum fyrir bestu að við settumst niður og ræddum það og kæmumst að samkomulagi um hvernig við ætlum að haga þinghaldinu það sem eftir er.

Ef við ætlum að halda áætlun á að hætta föstudaginn 4. maí. Ég fæ ekki betur séð, ef það á að takast, en að við höfum þá í mesta lagi sjö daga til að vinna hér í þingsalnum. Það er líka gert ráð fyrir einhverjum nefndardögum, tveimur eða þremur. Við vitum ekkert um hvenær þeir eiga að vera. Sennilega ekki fyrr en eftir helgi.

Mér finnst sú staða sem nú er upp komin, eins og þetta lítur út núna, stefna í mikið óefni. Ég hygg að það væri okkur öllum hollast að setjast niður og fara yfir það hvenær við ætlum að ljúka þinginu nú á vordögum. Á að ljúka því þann 4. maí eins og fyrirhugað er eða stendur til að halda áfram eitthvað lengur? Þetta þarf að ræða. Það þarf líka að taka ákvörðun um hvaða mál þingmenn geta sæst á að eigi að hljóta afgreiðslu þannig að við getum þá lokið störfum þingsins með fullri reisn og fullum sóma.

Ég vil beina þeim orðum til virðulegs forseta að hún taki þetta til gaumgæfilegrar athugunar þannig að við forðumst að lenda í algerum hnút. Það er engum til framdráttar.