132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Skráning og þinglýsing skipa.

666. mál
[21:57]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi varðandi þessa tillögu um að vista þetta verkefni hjá sýslumanninum á Ísafirði þá hygg ég að það sé ágætisákvörðun. Ég velti aðeins fyrir mér hvar þessi verkefni hafi hingað til verið vistuð. Hafa hinir ýmsu sýslumenn um landið annast þetta? Er nú verið að færa þetta til eins aðila? Ég náði því ekki alveg hjá hæstv. ráðherra hvar þessi mál væru vistuð í dag eða hvernig þau væru unnin.

Í öðru lagi um það sem lýtur að skráningu á skipum þá eru þetta náttúrlega bara íslensk skip, þetta gildir ekkert fyrir öll skip í eigu íslenskra aðila, heldur einungis um skip sem eru skráð hér á landi, ef ég skil þetta rétt. Það er því ekki gert ráð fyrir að þetta embætti safni upplýsingum um kaupskipin sem eru ekki lengur skráð hér. Mig langar aðeins að heyra hjá hæstv. ráðherra hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér að hér sé eingöngu verið að fjalla um þau skip sem eru í reynd skráð hér með heimilisfesti.